Hallbera Guðný þakkar fyrir sig hjá AIK og leitar að nýju liði í Svíþjóð

Landsliðskonan frá Akranesi, Hallbera Guðný Gísladóttir, mun ekki leika áfram með sænska úrvalsdeildarliðinu AIK. Félagið sendi leikmanninum kveðju á samfélagsmiðlinum Instagram en Hallbera Guðný lék 22 leiki með liðinu á síðustu leiktíð og var fyrirliði stóran hluta tímabilsins.

Hallbera Guðný sagði í viðtali við fotbolta.net í lok nóvember að markmið hennar væri að finna annað lið í Svíþjóð en hún stundar framhaldsnám í Stokkhólmi.

AIK hélt sæti sínu í úrvalsdeild eftir að hafa komið sér í deild þeirra bestu haustið 2020.

Hallbera Guðný hefur leikið með Djurgården sem er frá Stokkhólmi líkt og AIK og Hammarby. Brommapojkarna verða einnig í úrvalsdeildinni á næsta tímabili.

Hallbera Guðný er 35 ára og er á meðal leikjahæstu leikmanna íslenska kvennalandsliðsins frá upphafi. Hún hefur leikið 123 landsleiki og skorað í þeim 3 mörk. Framundan eru spennandi tímar með íslenska landsliðinu sem leikur í úrslitakeppni Evrópumótsins sem fram fer á Englandi sumarið 2022.

Hallbera Guðný lék með ÍA árið 2005 í efstu deild og er það eina tímabilið hjá henni á Skaganum.

Hún hefur komið víða við á ferlinum eins og sjá má hér og á þessari mynd.