Skagamenn brutu ísinn í 1. deild karla á Íslandsmótinu í körfuknattleik í kvöld með 82-70 sigri gegn Hrunamönnum.
Leikurinn fór fram í íþróttahúsinu við Vesturgötu og var þetta fyrsti sigur ÍA á tímabilinu. Staðan í hálfleik var 46-38 fyrir heimamenn.
Þetta var 12. leikur ÍA á tímabilinu og eins og áður segir var liðið án sigurs fram að leiknum í kvöld.
ÍA er enn í neðsta sæti deildarinnar en þar fyrir ofan er Hamar úr Hveragerði með 4 stig og Hrunamenn frá Flúðum eru með fjóra sigurleiki og 8 stig.
Hinn ungi og efnilegi leikmaður ÍA, Þórður Freyr Jónsson átti einnig frábæran leik, en hann skoraði alls 19 stig og skoraði alls 6 þriggja stiga körfur. Hann tók einnig 8 fráköst og gaf 4 stoðsendingar.
Christopher Khalid Clover var langatkvæðamestur í liði Skagamanna í kvöld en hann skoraði alls 26 stig og tók þar að aiki 9 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.
Hendry Engelbrecht lét mikið að sér kveða í varnarleik ÍA en hann tók alls 16 fráköst, varði alls 7 skot og gaf þar að auki 6 stoðsendingar. Hinn þaulreyndi leikmaður Ómar Örn Helgason lék einnig vel og skoraði 13 stig.