Fjöliðjan, HVER, frístundastarf og fleiri aðilar fá nýtt heimili í „Samfélagsmiðstöð“

Bæjarstjórn Akraness samþykkti á fundi sínum í gær að hefja uppbyggingu á Samfélagsmiðstöð á Dalbrautarreit þar sem að ýmis starfssemi verður sameinuð í nýrri byggingu. Hætt hefur verið að gera upp húsnæði Fjöliðjunnar, vinnu – og hæfingarstað, sem skemmdist mikið í bruna í maí 2019. Þess í stað verður nýtt mannvirki reist á lóðum við Dalbraut 8 og 10 – Samfélagsmiðstöð.

Nýtt húsnæði sem ber vinnuheitið Samfélagsmiðstöð verður reist á Dalbraut 8 þar sem starfsemi Fjöliðjunnar, HVER (Starfsendurhæfingu Vesturlands boðið aðstaða) sem nú er á Suðurgötu 57 og frístundastarf fyrir börn og ungmenni sem nú er á Þjóðbraut 13 mun fara fram og jafnvel önnur viðeigandi starfsemi t.d. að bjóða símenntunarmiðstöð og frístundatilboð fyrir almenna borgara.

Tillagan er í heild sinni hér fyrir neðan.

Þann 7. maí 2019 varð bruni í Fjöliðjunni vinnu- og hæfingarstað að Dalbraut 10 sem olli töluverðum skemmdum á húsnæðinu. Frá þeim tíma hefur starfsemi Fjöliðjunnar verið tímabundið í leiguhúsnæði að Smiðjuvöllum 17.

Við framtíðaruppbyggingu Fjöliðjunnar ákvað bæjarstjórn að starfsemi Fjöliðjunnar vinnu- og hæfingarstaðar yrði áfram staðsett að Dalbraut 10. Með þessari ákvörðun þurfi að huga að fjölmörgum þáttum m.a. stækkun núverandi lóðar vegna hugmynda um stækkun hússins og þeirrar starfsemi sem fylgir starfstöðinni.

Akraneskaupstaður hefur nýlega fengið yfirráð yfir lóð á Dalbraut 8 sem er byggingarreiturinn í hjarta Dalbrautarreits sem er deiliskipulögð sem fjölbýli. Miklir möguleikar á stækkun byggingarreits á 1.hæð, sem helgast af dýpt lóðarinnar.

Við umræðu kjörinna fulltrúar í bæjarstjórn við fjárhagsáætlunargerð 2022-2025 var rætt um breytingu á fyrri ákvörðun um uppbyggingu Fjöliðjunnar á Dalbrautarreit. Samhliða þessari umræðu var rætt um að byggja upp húsnæði fyrir aðra starfsemi sem Akraneskaupstaður veitir á Dalbrautarreit.

Tillagan felst í því að hætt verði við uppbyggingu á Fjöliðjunni að Dalbraut 10. Nýtt húsnæði sem ber vinnuheitið Samfélagsmiðstöð verður reist á Dalbraut 8 þar sem starfsemi Fjöliðjunnar, HVER (Starfsendurhæfingu Vesturlands boðið aðstaða) sem nú er á Suðurgötu 57 og frístundastarf fyrir börn og ungmenni sem nú er á Þjóðbraut 13 mun fara fram og jafnvel önnur viðeigandi starfsemi t.d. að bjóða símenntunarmiðstöð og frístundatilboð fyrir almenna borgara.

Við mat á þessari ákvörðun voru eftirtaldir þrír þættir sem við greiningu komu betur út:

  1. Með Samfélagsmiðstöð er hægt að byggja upp þjónustu og tækifæri til frístundastarfs fyrir alla íbúa, skapa aðstöðu til þátttöku til atvinnu, náms, endurhæfingar og til fræðslu og frístunda. Fjölbreyttur starfsmannahópur með ýmsa sérþekkingu getur eflt þekkingarflæði sín á milli.
  2. Á forsendum hugmyndafræði um samfélag án aðgreiningar og í ljósi þess að starfsemi Akraneskaupstaðar sem nú dreifist á marga staði fær húsnæði mun fyrr, jafnvel mörgum árum fyrr. Í dag er lítið flæði fagþekkingar á milli staða né samnýting á rýmum. Hver (Starfsendurhæfing), Frístundastarfið og Þorpið fá húsnæði mun fyrr sem annars yrði að biða í mörg ár. Seinkun verður frá fyrri hugmyndum á uppbyggingu fyrir Fjöliðjuna en markmiðið er að búa til öflugra húsnæði sem mun hlúa betur að starfsmönnum og notendum nýja húsnæðisins Fjöliðjunar, Hver og félagsmiðstöðvar og annars frístundastarfs. Jafnframt möguleiki að skapa glæsilega aðstöðu í garði sem er við Dalbraut 8 þar sem verður gróðurhús og matjurtaræktun svo eitthvað sé nefnt sem nýtist í fjölbreyttu starfi miðstöðvarinnar.
  3. Fjárhagsgreining leiðir til þess að þessi valkostur er hagkvæmari til lengri tíma m.t.t. uppbyggingar. Fjárfesting er meiri til að byrja með en tekjur af auknu byggingamagni á Dalbrautarreit eru meiri af þessum valkost fyrir Akranes. Jafnframt er tækifæri til að því að veita betri þjónustu við íbúa sem verður hagkvæmari sem m.a. felst í samnýtingu rýma og nýtingu á fagfólki.

Jafnframt verður byggð upp nýr vinnustaður líklega á Kalmannsvöllum 5, þar sem áhaldahús nú á Laugarbraut, endurvinnsla/dósamóttaka nú á Smiðjuvöllum 9 og Búkolla nytjamarkaður nú á Vesturgötu 62 fær nýtt sameiginlegt húsnæði. Þar sem atvinnu- og hæfingartengd þjónusta sem stuðlar að aukinni hæfni til starfa og þátttöku í daglegu lífi til jafns við aðra og þar sem þjónustu við viðhald stofnanna og mannvirkja kaupstaðarins verður stýrt.

Út frá framangreindu lagði bæjarráð fram tillögu sem bæjarstjórn samþykkt á fundi þann 14. desember 2021, um breytingu á uppbyggingu á Dalbrautarreit. Jafnframt samþykkti bæjarstjórn tillögu bæjarráðs tum að byggja nýtt húsnæði fyrir áhaldahús, endurvinnsluverkefni Fjöliðjunnar og Búkollu. Gert er ráð fyrir að Samfélagsmiðstöð verði tilbúin síðari hluta árs 2024 og nýtt húsnæði Áhaldahús, endurvinnslu og Búkollu verði tilbúið seinni hluta árs 2023.

Fyrirhugað er að fara í frekari greiningarvinnu með hagaðilum um möguleikana sem liggja í samnýtingu á rýmum og samstarfi sem verður grundvöllur að hönnun og nýtingu á nýju húsnæði. Hönnun mannvirkis verður hagað með þeim hætti að hlúð verður að starfsemi hverrar starfseiningar fyrir sig en um leið skapaður möguleiki á samlegð.

Samhliða þessari byggingu að Dalbraut 8 verður hægt að byggja upp þjónustu og tækifæri til frístundastarf fyrir hinn almenna borgara. Byggja upp miðstöð sem endurspeglar og fagnar margbreytileikanum í samfélaginu, starfar í anda samfélags án aðgreiningar í víðum skilning og eykur möguleika íbúa á fjölbreytni í tengslamyndun og samfélagslegri þátttöku.

Unnið hefur verið að því síðustu vikur að leita að öðru húsnæði fyrir hluta af starfsemi Fjöliðjunnar til að koma til móts við þann fjölbreyta hóp sem þar starfar. Eins og staðan er í dag þá hefur Fjöliðjan fengið tímabundna aðstöðu að Garðavöllum fram yfir áramót.