Eins og áður hefur komið fram á skagafrettir.is mun Íþróttabandalag Akraness hætta sem rekstraraðili líkamsræktar í íþróttamiðstöðinni á Jaðarsbökkum.
Akraneskaupstaður mun taka yfir rekstur líkamsræktarinnar og jafnframt kaupa eignarhluta ÍA í mannvirkjunum á Jaðarsbökkum.
Í samkomulagi Akraneskaupstaðar og ÍA fær félagið 15 milljónir kr. á ári næstu fimm árin og er greiðslan verðtryggð. ÍA fær því í það minnsta 75 milljónir kr. í sinn hlut.
Þar að auki samþykkti bæjarstjórn að heildarframlag til ÍA árið 2022 verði 45 milljónir kr. í stað 39,6 milljóna kr framlags sem er í núverandi samningi.
Til samanburðar var þetta framlag 20 milljónir kr. árið 2019 og hefur því hækkað umtalsvert á undanförnum misserum.
Þetta framlag kemur til viðbótar við „tómstundaframlag“ til að auðvelda þátttöku barna og ungmenna í félags- og íþróttastarfi og til stuðnings fjölskyldum á Akranesi en er greitt til íþrótta- og frístundafélaga.
Bæjarstjórn samþykkti að fela Sævari Frey Þráinssyni, bæjarstjóra, að ganga frá samningi til fimm ára um framangreint og koma með til bæjaráðs á ný til samþykktar.