„Siggi Tomm“ sigraði á ný og er tvöfaldur Akranesmeistari í pílukasti 2021

Nýverið fór fram Akranesmeistaramótið í pílukasti þar sem að keppnisfyrirkomulagið var Cricket.

Alls tóku tíu félagar í Pílufélagi Akraness þátt í íþróttahúsinu við Vesturgötu.

Félagið er með aðstöðu í kjallara íþróttahússins þar sem að Keilufélagið er einnig með aðstöðu.

Til úrslita kepptu Sigurður Tómasson og Sigurður Hafsteins Guðfinnsson (Diddi). Sá fyrrnefndi er ríkjandi Akranesmeistari Pílufélagsins í 501 og bætti hann nýjum titli í safnið eftir hörkuviðureign gegn nafna sínum.

Í tilkynningu frá Pílufélaginu kemur fram að silfurverðlaunahafinn Diddi sé hörkuspilari sem eigi framtíðina svo sannarlega fyrir sér.

Þar kemur einnig fram að „Siggi Tomm“ sé ótvíræður meistari ársins 2021. Stjórn félagsins óskar „Sigga Tomm“ til hamingju með sigurinn og þakkar félagsmönnum fyrir stórskemmtilegt mót og Guðmundi Sigurðssyni fyrir góða uppsetningu.

Hér er kynningarmyndband af leiknum Cricket sem er eitt vinsælasta keppnisformið í pílu.

https://youtu.be/dMo3iaPeLuI