Eins og fram hefur komið áður á Skagafréttum hefur Akraneskaupstaður ákveðið að taka tilboði Fastefli ehf. í byggingarétt á allt að 115 íbúðum á 6 lóðum á Sementreit. Fastefli ehf. mun greiða rúmlega 800 milljónir kr. fyrir lóðirnar.
Um er að ræða fyrsta áfanga í uppbyggingu á svæðinu en á næstu misserum verða 300 íbúðir reistar til viðbótar á svæðinu.
Við val á bjóðanda var horft annarsvegar til útlits og gæði bygginga og hinsvegar til byggingarréttargjalds. ARKÍS arkitektar eru hönnuðir af þessari tillögu sem fyrirtækið vann fyrir Fastefli ehf.
Umsögn matsnefndar um vinningstillögu er eftirfarandi:
„Tillagan er fallega unnin, spennandi og gefur góð fyrirheit um áframhaldandi byggð á Sementsreit. Framsetningin er góð. Vel er unnið með staðaranda og leitast við að tengja útlit við byggð í bænum. Uppbrot og efnisnotkun er skemmtileg með tilvísanir í nærumhverfi og þekktar byggingar. Kennileiti mættu vera meira afgerandi. Lóðin er áhugaverð og lífleg. Útgangur úr bílakjallara í miðjan garð virkjar lóðina og örvar samfélagsleg tengsl. Jákvætt er að bílakjallari sé ekki undir allri lóð og „jarðsamband“ náist í miðjum garði þar sem að hægt er að koma fyrir stórum trjám. Blágrænar ofanvatnslausnir á lóð og Svansvottun er jákvætt. Hugmynd að blöndun á sérbýli og fjölbýli með mismunandi húsgerðum gengur vel upp og gæði íbúða er góð.“
Í ljósi ofangreindra tilboða og þess að allar lóðir fóru út við Suðurgötu, horfir Akraneskaupstaður björtum augum til uppbyggingar á Sementsreit og hlakkar til samstarfs með þeim verktökum sem munu byggja upp reitinn.