Lykilmaður ÍA meiddist gegn Álftanesi – ungir leikmenn létu að sér kveða

Karlalið ÍA tapaði í gær 98-72 gegn liði Álftaness í 1. deild karla á Íslandsmótinu í körfubolta. Leikurinn fór fram í íþróttahúsinu við Vesturgötu.

Gestirnir frá Álftanesi byrjuðu leikinn af miklum krafti og náðu yfirburðaforskoti sem leikmenn ÍA náðu ekki að brúa það sem eftir lifði leiks.

Staðan var 33-56 fyrir gestina í hálfleik.

Skagamenn urðu fyrir miklu áfalli þegar Christopher Khalid Clover meiddist á ökkla undir lok fyrsta leikhluta. Hann lék aðeins í 11 mínútur í leiknum og skoraði 8 stig. Bandaríkjamaðurinn Clover hefur verið besti leikmaður liðsins á tímabilinu.

Christopher Khalid Clover. Mynd/skagafrettirlis

Hendry Engelbrecht, sem er frá Eistlandi, lét mikið að sér kveða undir körfunni en hann hann tók 11 fráköst og skoraði 12 stig.

Hendry Engelbrecht. Mynd/skagafrettir.is

Davíð Alexander H. Magnússon, sem hóf ferilinn hjá Fjölni, var stigahæsti leikmaður ÍA með 17 stig, 5 stoðsendingar og 7 fráköst

Davíð Alexander H. Magnússon. Mynd/skagafrettir.is

Ungir og efnilegir leikmenn úr röðum ÍA fá stærra hlutverk með hverjum leiknum sem líður. Þórður Freyr Jónsson skoraði 14 stig, þar af fjórar þriggja stiga körfur úr 10 tilraunum.

Aron Elvar Dagsson skoraði nánast eitt stig á hverri mínútu sem hann lék en hann skoraði 15 stig í leiknum. Daði Már Alfreðsson fékk einnig tækifæri að láta ljós sitt skína ásamt Júlíusi Duranona og Alex Tristani Sigurjónssyni.

Leikurinn var sýndur á ÍA TV eins og sjá má hér fyrir neðan.