Við ætlum að gera samfélagið okkar betra


Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness skrifar:



Ekkert ofbeldi á að líðast og við öll í samfélaginu höfum áhrif. Aðdáunarvert er hvernig hugrökk fjölskylda steig fram nýverið með sína sögu. Jón Gautur, Guðlaug Gyða, Hannes og Bergþóra þið eruð hetjur í mínum huga fyrir hvernig þið hafið opnað umræðuna um einelti. Við erum þakklát fyrir fólk eins og ykkur sem er tilbúið að ræða um þrautir sínar svo hægt sé að læra af og svo tryggja megi rétt viðbrögð til framtíðar. Engin á það skilið að vera niðurlægður, útskúfaður félagslega, pínd/ur andlega eða líkamlega. Slíkt kallar fram sálarkvalir sem geta haft áhrif á einstaklinga fyrir lífstíð.

Umræðan undanfarið hefur vakið mig til umhugsunar um það hvernig við í samfélaginu komum fram við hvort annað. Við á Akranesi trúum því að við búum í heilnæmu og góðu samfélagi. Er möguleiki að hvert og eitt okkar geti gert betur? Er barnið okkar hugsanlega gerandi með hunsun eða stríðni sem við verðum að horfast í augu við? Við getum trúað þolendum jafnvel þó gerandinn sé okkur nákominn. Er ást okkar og stuðningur lykillinn að því að hlúa og hjálpa gerandanum á rétta braut? Eru okkar viðbrögð lykillinn í því að bæta líf svo margra þolenda? Getum við sýnt gott fordæmi þar sem við erum hluti af hóp eða förum fyrir hóp í samfélaginu okkar? Yfirmaður á vinnustað sendir skýr skilaboð um að ofbeldi í nokkurri mynd er ekki liðið? Fyrirliði liðsins hvetur alltaf til jákvæðra samskipta innan liðsins. Getum við tekið betur á móti nýju fólki sem flytur í bæinn okkar? Er möguleiki að við tökum eftir nýja nágrannanum sem var að flytja og bjóðum hann velkomin og leggjum okkur fram við að honum líði vel í samfélaginu okkar? Við höfum öll áhrif á gæði þess bæjarfélags sem við búum í.

Skólar og vinnustaðir eiga aldrei að líða einelti svo allir geti notið lífsins og fái ráðrúm til að þroska hæfileika sína. Hlúa þarf að og vernda þolendur og hjálpa gerendum til betri vegar. Ekki vantar að Akraneskaupstaður er með verkferla í eineltis-, ofbeldis og áreitni málum. Ljóst er að við verðum að gera mikið betur því ekki má vera tilviljunum háð að við grípum inn í aðstæður til að hlúa að fólki. Við verðum að vera tilbúin að horfa inn á við og vera tilbúin að bæta okkur. Í ljósi umræðunnar ákvað skóla-og frístundaráð að taka einelti og forvarnir gegn einelti til umræðu á fundi 7.desember síðastliðinn og var umræðan undanfarið til umfjöllunar í bæjarstjórn 12. desember.

Skóla-og frístundaráð leggur áherslu á að samskipti í samfélagi okkar séu uppbyggileg og unnið sé með áhrifaríkum hætti að forvörnum gegn einelti. Skólastjórnendur fóru yfir eineltisáætlun grunnskólanna og tilurð hennar en sambærileg áætlun er í báðum skólum og Þorpinu. Guðmunda Ólafsdóttir framkvæmdastjóri ÍA fór yfir stöðu mála hjá íþróttahreyfingunni og vinnu við nýja áætlun um samskipti og viðbrögð við einelti. Í kjölfarið ákvað skóla- og frístundaráð að forgangsraða fjármagni í þróunarsjóð næsta árs og stofna starfshóp með fulltrúum þvert á samfélagið sem hefur það hlutverk að rýna í styrkleika og tækifæri til umbóta innan skóla- og frístundastarfs varðandi samskipti og einelti. Endurskoða verklag og verkferla og nýta til þess færustu sérfræðinga í málefninu. Markmiðið með verkefninu er að allar stofnanir okkar búi áfram yfir öflugum viðbragðsáætlun og verkfærum til þess að styrkja félagsfærni barna og ungmenna og tryggt sé að þverfaglegt samstarf sé innan samfélagsins til þess að ná þessum árangri.

Tökumst öll á við það verkefni saman að ofbeldi sé ekki liðið. Tökum öll þátt í því verkefni að gera samfélagið á Akranesi einstakt.

Sævar Freyr Þráinsson.