Guðlaugur Baldursson hefur verið ráðinn sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu hjá ÍA.
Knattspyrnufélag ÍA greindi frá þessum tíðindum á samfélagsmiðlum KFÍA í kvöld.
Guðlaugur er afar reynslumikill þjálfari, hann hóf þjálfaraferil sinn í meistaraflokki í Vestmannaeyjum er hann tók við efstu deildar liði ÍBV að loknu keppnistímabilinu 2004.
Hann hefur á ferli sínum þjálfað, ÍBV, lið ÍR og Keflavíkur bæði í efstu og næst efstu deild.
Hann var jafnframt aðstoðarþjálfari Heimis Guðjónssonar hjá FH á árunum 2012-2016 þar sem hann fagnaði þremur Íslandsmeistaratitlum á fimm árum.
Guðlaugur var síðast þjálfari Þróttar úr Reykjavík.
Arnór Snær Guðmundsson var aðstoðarþjálfari meistaraflokks ÍA fram á mitt tímabil 2021 áður en hann fór til norska meistaraliðsins Bodö/Glimt að starfa sem styrktarþjálfari.
Fannar Berg Gunnólfsson tók við af Arnóri Snæ en Fannar Berg verður ekki áfram í þjálfarateymi ÍA á næstu leiktíð.