Sókn og uppbygging rauði þráðurinn í fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar

Fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árið 2022 og þriggja ára áætlun 2023 til 2025 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Akraness þriðjudaginn 14. desember síðastliðinn (sjá hér). Einnig var fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun samþykkt. Þetta kemur fram í frétt á akranes.is.

Áætlað er að setja um um 2.153 milljónir kr. í fjárfestingar á árinu 2022 og eru 6.028 milljónir kr. fyrirhugaðar í fjárfestingar og framkvæmdir á næstu fjórum árum.

Áætlað er að rekstarhagnaður verði 213,8 mkr. á árinu 2022 eða 2,28% sem hlutafall af tekjum sveitarfélagsins.

Spáð er að rekstrarhagnaður Akraneskaupstaðar á árinu 2021 verði 180,7 m.kr. eða sem nemur 2,07% sem hlutfall af tekjum sveitarfélagsins. Rekstrarafkoma næstu ára þ.e. á árunum 2022 til 2025 er áætluð að meðaltali 328 m.kr.

Helstu atriði fjárhagsáætlunar 2022 eru:

 • Gert er ráð fyrir óbreyttu útsvari á árinu 2021, eða 14,52%
 • Gjaldskrár hækka um 3,5%.
 • Álagningarprósentur fasteignaskatta verða óbreyttar og verður 0,2514 fyrir íbúðarhúsnæði og 1,4% fyrir atvinnuhúsnæði.
 • Lóðarleiga af nýjum lóðum og endurnýjuðum samningum verður 1,199% af fasteignamatsverði atvinnulóða og 0,3034% af fasteignamatsverði íbúðarhúsalóða

Fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar gerir ráð fyrir umfangsmiklum fjárfestingum næstu árin að fjárhæð 6.028 milljónir króna. Fyrirhuguð lántaka vegna þess á næstu þremur árum áætluð 3.300 m.kr. Samhliða því er fyrirhugað að greiða niður langtímalán að fjárhæð 1.329 m.kr. og greiðslu lífeyrisskuldbindingar að fjárhæð 992 m.kr. til árins 2025.

Akraneskaupstaður mun viðhalda ábyrgri fjármálastefnu og sjá til þess að vera vel innan þeirra fjárhagslegu viðmiða sem gerð eru til sveitarfélaga, þ.e. að rekstrarjöfnuður síðustu þriggja ára (samanlögð rekstrarafkoma á þriggja ára tímabili) verður jákvæður sem nemur 528 m.kr. í árslok 2022.

Fjárhagsáætlunin gerir jafnframt ráð fyrir því að rekstrarjöfnuður muni nema rúmum 1.098 m.kr. í árslok 2025 þrátt fyrir umtalsverðar fjárfestingar í innviðum bæjarins á þeim tíma og aukningu rekstargjalda s.s. vegna nýs íþróttahúss á Jaðarsbökkum og vegna nýs leikskóla.

Skuldaviðmið sveitarfélagsins, þ.e. heildarskuldir og skuldbindingar A- og B- hlutans sem hlutfall af reglulegum tekjum mun fara hækkandi samkvæmt fjárhagsáætlun bæjarins. Áætlað skuldaviðmið sveitarfélagsins í árslok 2022 mun nema 47,6% en hámark sveitarfélaga er 150% af reglulegum tekjum þess.

Fjárhagsáætlun Akranes gerir ráð fyrir því að skuldaviðmiðið fari hækkandi og muni verða um 57,2% í lok árs 2025. Veltufjárhlutfall samstæðunnar er jafnframt sterkt og er áætlað að nemi 1,13 í árslok 2022 en veltufjárhlutfall segir til um hversu vel í stakk búið sveitarfélagið er til þess að mæta nauðsynlegum greiðslum á næstu 12 mánuðum og á helst ekki að vera undir 1,0 til lengri tíma litið.

Veltufjárhlutfall sveitarfélagsins mun þá fara lækkandi á tímabili fjárhagsáætlunarinnar í samræmi við aukna fjárfestingu. Áætlað er að veltufjárhlutfallið nemi 0,94 í árslok 2025.

Meðal fjárfestinga og uppbygginga verkefna á árinu 2021:

 • Menntun:Í uppbyggingu er nýr sex deilda leikskóli í Skógarhverfisem hefur möguleika á stækkun í átta deildir og lýkur framkvæmdum á árinu. Umfangsmikil stækkun og endurbótum á Grundaskóla mun hefjast í framhaldi af því að lokahönnun klárast. Endurbætur í Brekkubæjarskóla heldur áfram og munu bætast við viðbótar kennslustofur á árinu ásamt því að glæsilegum endurbótum á nýjum skólalóðum skóla mun halda áfram.
 • Íþróttir: Stærsta framkvæmd um árabil hefst með byggingu íþróttamannvirkjum á Jaðarsbakka með uppbyggingu, íþróttahúss, geymslu og búningsklefa.
 • Frístundir, endurhæfing og atvinnuþáttaka: Framkvæmdir við nýja Samfélagsmiðstöð við Dalbraut 8 mun fara í gang í framhaldi af hönnunarferli, þar sem starfsemi frístundastarfs barna og ungmenna, Fjöliðja og HVER (Starfsendurhæfingu verður boðin aðstaða).
 • Nytjamarkaður, endurvinnsla og áhaldahús: Byggður verður upp nýr vinnustaður þar sem atvinnu- og hæfingartengd þjónusta sem stuðlar að aukinni hæfni til starfa og þátttöku í daglegu lífi til jafns við aðra og þar sem þjónusta við viðhald stofnanna og mannvirkja kaupstaðarins verður stýrt. Framkvæmdir munu hefjast í framhaldi af hönnunarferli.
 • Velferð og mannréttindi: Framkvæmdum við byggingu tíu íbúða fyrir fatlaða og öryrkja mun ljúka á Dalbrautarreit. Framkvæmdir munu hefjast á Asparskógum í samstarfi við Bjarg íbúðafélag og ljúka á Dalbrautareit í samstarfi við Leigufélag aldraða. Framkvæmdum mun ljúka innanhúss á þjónustumiðstöð fyrir aldraða.
 • Götur og stígar: Gatnaviðgerðir eru fyrirhugaðar þ.á.m. áframhald á Garðagrund ásamt Suðurgötu og hluti Hafnarbrautar ásamt viðhaldi gatna sem verður kynnt á næstu mánuðum. Ný gatnagerð er fyrirhuguð í Flóahverfi,Skógarhverfi 3A og byrjað í Skógarhverfi 3C og Breiðargötu.. Gatnagerð mun hefjast samhliða uppbyggingu innan Sementsreits,. Í stígagerð verður byrjað á stíg upp í Flóahverfi ásamt frekari gatnagerð þar.
 • Atvinnutengd verkefni: Markaðssetning á bænum til búsetu og bein markaðssókn til kynningar atvinnulóða á Grænum iðngörðum í Flóahverfi og samstarf við Flói.is. Vefurinn 300akranes.is verður nýttur til kynningar á Flóahverfi, Dalbrautareit, Sementsreit og Skógarhverfi. Fyrirhuguð er sókn í uppbyggingu atvinnu í samstarfi við þróunarfélögin á Breið og Grundartanga en árlegt rekstrarframlag þar er 20 mkr. og 15. mkr. á ári. Má þar nefna áframhaldandi uppbyggingu á rannsóknar- og nýsköpunarstarfsemi, rekstur hitaveitu á Grundartanga. Mikill áhugi er meðal fjárfesta á uppbyggingu á nýjum miðbæ og verður unnið með það næstu mánuðina. Stór opin hugmyndasamkeppni er fyrirhuguð á Breið og ætlunin að vinna áfram með áherslur sem komu út úr hugmyndasamkeppni á Langasandssvæði.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fyrirhugaðar fjárfestingar Akraneskaupstaðar á næstu árum:

Að sögn Sævars Frey Þráinssonar bæjarstjóra er fjárhagsstaða Akraneskaupstaðar góð og sjást merki þess að það hefur fjölgað hratt á vinnumarkaði og laun hækkað á Akranesi. Þetta er afar mikilvægt og er að hafa jákvæð áhrif á rekstur eftir samdrátt sem fylgdi áhrifum heimsfaraldurs á tekjur árið 2019 og 2020. Stefnir í að rekstrarafkoma ársins verði nokkuð góð og áfram er rekstarhagnaður hjá Akraneskaupstað. Þar skiptir verulegu máli að ábyrg fjármálastjórn hefur verið við líði á Akranesi undanfarin ár. Tekist hefur að vernda grunnþjónustu en nú ætlum við okkur stórsókn í atvinnuuppbyggingu. 

„Við erum að sjá að vinna undanfarina ára í atvinnusókn er byrjuð að skila árangri. Upp úr áramótum verða nálægt 100 einstaklingar farnir að starfa á Breið og við sjáum verulegan áhuga á uppbyggingu atvinnustarfsemi í Grænum iðngörðum í Flóahverfi. Fjárfestar eru farnir að banka á dyrnar með uppbyggingaráform við Guðlaugu, á Breiðinni, á Sementsreit, hótel við golfvöllinn og síðast en ekki síst á Grundartanga þar sem mögnuð tækifæri eru til staðar með uppbyggingu gufuaflsvirkjunar, hitaveitu og framleiðslu rafeldsneytis. Jafnframt hefur líklega aldrei verið jafn mikið byggt á Akranesi en nú hefur lóðum verið úthlutað til bygginga 572 íbúða gríðarleg uppbygging innviða er í kortunum í uppbyggingu leikskóla, grunnskóla, frístundastarfs, Íþróttahús ásamt umfangsmikilli gatnagerð. Við erum spennt að vinna með Það má því með sanni segja að framundan er ár mikillar uppbyggingar í innviðum, í íbúðauppbyggingu og sóknar í atvinnumálum.

Á árinu verður unnið áfram með menntastefnu, jafnréttisstefnu og aðgerðum í umhverfisstefnu og innleiðingu á Barnvænu samfélagi. Áhersla er að vinna í aðgerðum til að bæta líðan barna, ungmenna og starfsmanna í framhaldi af áhrifum heimsfaraldurs og stuðla að aukinni þátttöku og virkni í foreldrasamstarfi. Við ætlum að auka samstarf við HVE og nýta tækifæri sem felast í opnun nýrrar þjónustumiðstöðvar á Dalbraut 4. Jafnframt að nýta þau tækifæri sem felast í nýtingu nýrrar þekju sem nú er tilbúin sambyggð við nýtt fimleikahús og Íþróttahús á Vesturgötu. Við erum búin að vera í mikilli uppbyggingu en framundan er uppbygging nýs íþróttahús á Jaðarsbökkum, ný Samfélagsmiðstöð á Dalbraut 8, opnun nýs leikskóla í Skógarhverfi, uppbygging og stækkun Grundaskóla Nú er það okkar allra að nýta möguleikana og sækja fram í okkar framúrskarandi fjölskyldubæ.“