Bræðurnir frá Beitistöðum Ólafur og Magnús Óskarssynir kvöddu í gær Bílasöluna Bílás sem þeir hafa rekið saman í um fjóra áratugi.
Alexander Leó Þórsson og Kristján Einarsson hafa keypt Bílasöluna Bílás og taka við keflinu af þeim bræðrum.
Það var sannkölluð fjölskyldustund í gær þegar þeir bræður kláruðu síðustu söluna á starfsferlinum.
Jóhanna Ólafsdóttir, dóttir Ólafs, fékk nýja og glæsilega KIA bifreið afhenta frá föður sínum.
Þar var einnig mættur á svæðið, Jón Trausti Ólafsson, bróðir Jóhönnu, en hann er forstjóri bílaumboðsins Öskju sem er umboðsaðili KIA og Jón Trausti var einnig formaður Bílgreinasambands Íslands allt fram til ársins 2020.
Jón Trausti skrifar eftirfarandi texta um heimsókn sína á Akranes í gær.
Góð ferð á Skipaskaga í dag til að heiðra bræðurna frá Beitistöðum Ólaf og Magnús sem eru nú að kveðja bílasöluna eftir hátt í 40 ára farsæl störf og góða þjónustu við Skagamenn og Stór-Vesturlandið. Síðasta formlega afhendingin var að sjálfsögðu nýr og glæsilegur Kia til systur minnar Jóhönnu, og þvílíkt útsýni á Akrafjall og Skarðsheiði af því tilefni.
Alveg viss um að nú taka við spennandi verkefni hjá bræðrunum og þeir munu ná fljótum og góðum árangri á golfvellinum, í spænskunni á Tenerife og fleiru sem þeir munu taka sér fyrir hendur. Gott að hafa fengið bílasöluuppeldið hjá þessum góðu og traustu sölumönnum frá Beitistöðum.