Dansandi gleði á nýjum námskeiðum fyrir börn hjá Dansstúdíói Díönu

Það verður nóg um að vera hjá Díönu Bergsdóttur á næstu vikum og mánuðum en hún hefur sett á laggirnar Dansstúdíó á Akranesi.

Díana er þaulreynd í faginu en hún stundaði nám í Listdansskóla Íslands og er einnig með BA í markaðsfræði, og þjálfararéttindi í fimleikum.

Díana stofnaði nýverið Dansstúdíó og fyrsta námskeiðið á hennar vegum er „Dans og Hreyfing“ sem er ætlað fyrir fyrir 4-7 ára. Og einnig fyrir 4-10 ára börn sem þurfa á stuðningi að halda vegna sérþarfa.

„Helsta áherslan á námskeiðunum er dans, hreyfing, samhæfing og auðvitað skemmtun! Börnin læra dansa við lög sem þau þekkja og læra léttar rútínur,“ segir Díana í samtali við Skagafréttir.

Verkefnið er unnið í samvinnu við Fimleikafélag Akraness, ÍA.

„Félagið hafði samband við mig til þess að þjálfa þennan aldur í samstarfi við þau, dans er stór partur af fimleikum og okkur langaði að bjóða upp á meiri dans fyrir börn á þessum aldri. Dans er frábær hreyfing og það er alltaf mikil gleði í dansi. Þetta verður allt unnið eftir þeim og þeirra áhuga svo allir geti notið sín og haft gaman,“ segir Díana ennfremur.

Dansnámskeiðin byrja í næstu viku eða 10. jan og munu standa yfir í 10 vikur.

Skráning fer fram inn á sportabler

Hægt að fylgjast með á Facebook: Dansstúdíó Díönu og Instagram: @dansstudiodionu.