Bæjarráð vill gera viljayfirlýsingu um byggingu 80 herbergja hótels og baðlóns við Jaðarsbakka

Bæjarráð Akraness hefur samþykkt að fela bæjarstjóra að vinna að gerð viljayfirlýsingar vegna hugmynda um uppbyggingu íþróttamannvirkja og heilsutengdrar ferðaþjónustu við Jaðarsbakka. 

Áður höfðu Velferðar -og mannréttindarráð og skóla – og frístundaráð fjallað um málið og lagt til að skrifað yrði undir viljayfirlýsingu við fulltrúa Ísoldar fasteignafélags, Íþróttabandalags Akraness og Knattspyrnufélags Akraness. 

Nýverið barst erindi til Akraneskaupstaðar vegna uppbyggingar á hóteli og baðlóni við Jaðarsbakka.  Í stuttu máli gengur hugmyndin út á eftirfarandi atriði.

Um er að ræða 80 herbergja hótel – og baðlón, sem tengist Langasandi og Guðlaugu. Hótelið yrði um 5.000 fermetrar og heilsulind um 650 fermetrar, auk 600 fermetra laugarkers sem myndi sóma sér vel í umhverfinu. 

Þess ber að geta að allar myndir með þessari frétt eru gerðar af skagafrettir.is og aðeins byggðar á þeim gögnum sem nú eru til staðar í fundargerðum Akraneskaupstaðar. Engar tillögur hafa verið lagðar fram af þeim aðilum sem hafa hug á því að byggja á þessu svæði. 

Til samanburðar má nefna að Hótel Sigló á Siglufirði er með rúmlega 60 herbergi, Fosshótel í Reykholti í Borgarfirði er með 83 herbergi, Hótel Vestmannaeyjar er með 43 herbergi, Hótel Keflavík er með 73 herbergi, Hótel Bifröst er með 50 herbergi og Hótel Glymur í Hvalfirði er með 23 herbergi.

Knattspyrnufélag Akraness og Íþróttabandalag Akraness hafa áhuga á að þessi framkvæmd gangi eftir – og er m.a. gert ráð fyrir því að hinn fornfrægi knattspyrnuvöllur, Akranesvöllur, verði færður til þess að búa til rými fyrir hótel og baðlón. 

Engar teikningar hafa verið lagðar fram en gera má ráð fyrir að ásýnd Jaðarsbakkasvæðisins muni breytast gríðarlega – og núverandi svæði sem nýtt hefur verið fyrir m.a. þyrluflugvöll og samsöng á Írskum dögum verði nýtt undir þessar framkvæmdir.  

Í erindinu kemur fram að verkþættir samstarfsins myndu ná til ýmissa þátta sem gætu eflt samfélagið á Akranesi. 

Þar má nefna stefnumörkunar á ferðaþjónustu fyrir Akranes, til að styrkja uppbyggingu hótels og baðlóns sem gætu náð til almennra tækifæra á Akranesi, heilsutengdrar ferðaþjónustu og samlegðartækifæra með Heilbrigðistofnun Vesturlands á Akranesi.

 

Hönnun hótels, baðlóns og skipulags á svæðinu til að tryggja að hagsmunir íbúa, íþróttafélaganna og annarra hagsmunaaðila séu sem best tryggðir og tækifæri tengd ferðaþjónustu séu nýtt. 

 

Samhliða yrði unnið að skipulagi og svo uppbyggingu á íþróttamannvirkjum á Jaðarsbökkum.

Ísold fasteignafélag hefur ráðið Basalt arkitekta sem hönnunaraðila verkefnisins.

ÍA  og Knattspyrnufélag ÍA (KFÍA) sendu bréf á bæjarráð þann 30. nóvember s.l. og þar komu fram áhugaverðar tillögur um breytingar á Jaðarsbakkasvæðinu. 

ÍA og KFÍA telja að nauðsynlegt sé að fara í verulegar endurbætur á knattspyrnuvellinum við Jaðarsbakka. Öflugur hópur sjálfboðaliða gerði völlinn á miðjum fjórða áratug síðustu aldar – og er ljóst að undirlag vallarins er langt á eftir þeim gæðastöðlum sem notaðir eru í dag við uppbyggingu á slíkum íþróttamannvirkjum.

Í bréfinu eru viðraðar hugmyndir og lausnir til skemmri og lengri tíma – ef ráðist yrði í risavaxnar breytingar á legu Akranesvallar. 

Þar er sagt frá þeirri hugmynd að snúa Akranesvelli í 90 gráður og þar með myndi völlurinn liggja samhliða vesturhlið Akraneshallar.

Aðalvöllur myndi vera á 12 þúsund fermetra svæði og með tilfærslunni væri hægt að nýta 1,5 hektara af landsvæði til uppbyggingar og umhverfisbóta. Í bréfinu kemur fram að náttúrugras, hybridgras og gervigras séu allt valkostir sem komi til greina í vali á undirlagi á nýjum grasvelli. Hybrid gras er blanda af náttúrugrasi og gervigrasi – en slík lausn varð fyrir valinu á Kaplakrikavelli hjá FH, 

Ljóst er að með breytingum á aðalvelli verður ekki hægt að leika á honum í 1-2 ár. Það leiðir af sér að gera þyrfti gervigrasvöll austan Akraneshallar – með bráðabirgðaaðstöðu fyrir áhorfendur á meðan framkvæmdum stendur. Sá völlur myndi í framhaldinu nýtast sem æfinga – og keppnisvöllur fyrir leiki KFÍA til lengri tíma. 

Ekki hafa verið lagðar fram hugmyndir um hvað verður gert við áhorfendastúkuna við Akranesvöll í þessu breytingarferli – eða hvort ný áhorfendastúka verði gerð á vesturhlið Akraneshallar. 

Myndirnar hér fyrir neðan eru samsettar af skagafrettir.is og eru aðeins byggðar á þeim gögnum sem koma fram í bréfi ÍA.