Dreymir um landsliðssæti og HM í pílu í Minions-búning

Á undanförnum árum hefur áhugi almennings á pílukasti aukist verulega.

Sigurður Tómasson, Skagamaður og grunnskólakennari í Heiðarskóla í Hvalfjarðarsveit, hefur á undanförnum misserum skipað sér í fremstu röð á landsvísu í pílukasti.

Sigurður, sem keppir fyrir Pílufélag Akraness, hefur náð frábærum árangri á síðustu árum og bankar hann fast á dyrnar hjá landsliði Íslands. 

Skagafréttir ræddu við Sigga Tomm og fyrsta spurningin var hvenær hann byrjaði að stunda pílu. 

„Ég var 14 ára þegar ég byrjaði fyrst, árið 1987, og það var í félagsmiðstöðinni Arnardal hjá Einar Skúlasyni (Faxa) vini mínum. Það sama ár sigraði ég á Akranesmótinu sem var á þeim tíma stórt dæmi.

Á næstu árum hafði enginn áhuga á pílu og þetta lognaðist bara útaf og ég hætti,“ segir Siggi Tomm en áhugi hans vaknaði á ný þegar Stöð 2 hóf að sýna frá Heimsmeistaramótinu í pílu. 

Haustið 2019 setti ég upp píluspjald heima hjá mér og byrjaði að kasta nokkrum sinnum í viku. Það var svo gaman að ég gekk í P.F.A. sem hafði verið stofnað árið á undan. Núna æfi ég markvisst í 1,5 tíma á dag undir leiðsögn þjálfara á netinu.“

Aðstaðan á Akranesi til æfinga er að sögn Sigga Tomm viðunandi og áhugi Skagamanna er meiri en áður. 

„Það er kominn ágætis kjarni hjá P.F.A. sem keppir vikulega og félögum fer fjölgandi. Tvö lið á vegum félagsins keppa vikulega og eru að keppa um efstu sætin í A og B deild í bænum. P.F.A. varð í 3 til 4 sæti á Íslandsmeistaramóti félagsliða þar sem við töpuðum í undanúrslitum á móti Grindavík.

Aðstaðan hér á Akranesi er ekki alveg eins góð og hjá stórum klúbbunum en er þó viðunandi. Guðmundur Sigurðsson hjá í Keilufélagi Akraness er alltaf að gera aðstöðuna betri og æfingar eru á fimmtudagskvöldum í aðstöðu Keilufélags Akraness sem er í kjallaranum á Vesturgötu.“

Árið 2021 var gott hjá Sigga Tomm og ætlar hann að gera sitt besta að verja titlana sína. Draumurinn er að keppa fyrir hönd Íslands.

„Árið 2021 var mjög gott fyrir mig en ég er tvöfaldur Akranesmeistari ásamt því að ég er á topp 10 yfir þá leikmenn sem eru með besta meðaltalið í liðamóti P.F.R. Um síðustu helgi lauk fjölmennasta móti (Novis-deildin) sem hefur verið haldið á landinu. Þar gekk mér vel en ég vann mína deild og í heildina var ég með 8. besta árangurinn af þeim 122 sem tóku þátt í karlaflokki.

Ég mun gera mitt besta að verja þá titla sem ég vann í fyrra á þessu ári og þá er stefnan hjá mér að ná a.m.k. í topp 16 á þeim stóru mótum sem framundan. Reykjavík International fer fram 4.-6. febrúar, Icelandic Open verður í apríl og Íslandsmótið í 501 fer fram í maí.

Hvað varðar landsliðið þá er það sennilega ekki raunhæft að ég komist í það á þessu ári. Ég er í raun nýliði miðað við þá sem eru búnir að kasta sem mest í úrtakinu. Það er alltaf samt möguleiki ef ég held áfram að bæta mig en klárlega á næstu árum væri gaman að spila fyrir Íslands hönd.“

Skagamaðurinn var um síðustu helgi í æfingabúðum hjá landsliðinu.  

„Æfingahópurinn hittist í fyrsta skipti um síðustu helgi í Grindavík landliðsúrtakið. Jesper Paulsen landsliðsþjálfari valdi hóp til að fara yfir ýmislegt sem viðkemur landsliðinu. Fyrsta landsliðsverkefnið á þessu ári er Norðulandamótið sem haldið verður í Sviþjóð dagana 26.-29.maí. Í það verkefni verða valdir 8 karlar og 4 konur.

Eins og áður segir kveikti HM í pílu neistann að nýju hjá Sigga Tomm en hann á sér draum um að komast á HM sem áhorfandi í Minions-búning. 

„Ég hef engan sérstakan draum um að fara sem keppandi að spila á HM en það væri geggjað að fara í „Ally Pally höllin“ sem áhorfandi einn daginn í Minions-búning og þá náttúrulega sem Bob.

HM í pílu er uppáhalds sjónvarpsefnið mitt á hverju ári og ég missi varla af leik frá upphafi til lok mótsins í þær þrjár vikur sem mótið stendur yfir. Rússinn Boris Koltsov er í miklu uppáhaldi hjá mér og svo hef ég einnig gaman af „Rapid“ Ricky Evans,“ segir Sigurður Tómasson að lokum.