Spennandi tímar framundan á sólríkum slóðum hjá efnilegu sundfólki úr röðum ÍA

Einar Margeir Ágústsson, Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir og Enrique Snær Sigurðsson hafa á undanförnum misserum látið mikið að sér kveða í sundíþróttinni hjá ÍA.

Þau eru öll í úrvalshópi Sundsambands Íslands og hluti af unglingalandsliði SSÍ. Um s.l. helgi tóku þau þátt í æfingabúðum afrekshópa SSÍ og þar voru gerðar ýmsar mælingar á sundfólkinu – sem fyrirtækið Optimizar Sportscenter hefur umsjón með.

Framundan eru æfingabúðir á heitari svæðum hjá landsliðum og afrekshópum SSÍ.

Einar Margeir, Guðbjörg Bjartey og Enrique Snær fara til Tenerife með SSÍ í byrjun febrúar þar sem að hópurinn mun æfa af krafti í 10 daga, 2. -10. febrúar.

Landsliðsþjálfari Sundsambands Íslands er hinn þaulreyndi Skagamaður, Eyleifur Ísak Jóhannesson.