Skagakonan Ásta Sigurðardóttir, hönnuður og jógakennari, er í áhugaverðu viðtali á fréttavef mbl.is þar sem hún segir frá áhugaverðu ferðalagi á ítölsku eyjunni Sikiley. Þar kemur fram að Ásta hafi hug á því að kaupa sér hús fyrir eina evru eða 150 krónur.
Smelltu hér fyrir viðtalið á mbl.is.
Bæjarfélög á Ítalíu reyna nú í auknum mæli að selja yfirgefin hús á þessu verði til að draga að framtakssama kaupendur.
„Þeir einstaklingar sem festa kaup á eign fyrir eina evru skuldbinda sig til að klára að gera hana upp á næstu þremur árum. Þá þurfa nýir eigendur að leggja fram innborgun sem þeir fá endurgreidda að lokum endurbótum. Ekki er krafist að nýir eigendur setjist að í bæjunum en ef margir hafa áhuga á eigninni þá fær sá forgang sem ætlar að búa á staðnum,“ segir Ásta.
Húsin sem hún er að skoða um þessar mundir eru á Cammarata á Sikiley, bærinn er í 700 metra hæð fyrir ofan sjávarmál og er einstaklega fallegur að hennar mati.
Ásta bjó áður í Frakklandi, þá starfaði hún fyrir fjárfesti sem persónulegur aðstoðarmaður, vinnan fól meðal annars í sér að halda utan um rekstur villu hans, sem er á besta stað í Frakklandi að hennar mati.
„Ég var stödd í Frakklandi að kenna jóga yfir sumarið og sótti um þetta starf eftir að ég sá það auglýst. Villan sem ég starfaði í var stór og verkefnin í henni voru mörg. Það var starfsfólk að sinna sundlauginni, garðinum og svo þjónustufólk sem sá um matargerð og þrif svo eitthvað sé nefnt.“
Ásta bjó á Akranesi sem barn og unglingur – en hún er hluti af hinum magnaða 1968 árgangi á Akranesi.
Hægt er að fylgjast með ferðalagi Ástu á Instagram.