Aðsend grein eftir Halldór Jónsson
Öllum er í fersku minni áfall samfélagsins á Akranesi þegar Fjöliðjan skemmdist mikið í eldi fyrir bráðum þremur árum síðan. Strax varð ljóst að þessar miklu skemmdir, ásamt mygluskemmdum er greinst höfðu skömmu áður, kölluðu á nýja stefnumótun starfseminnar frá grunni. Í þessu áfalli fólst því ákveðið tækifæri. Tækifæri til þess móta að nýju frá grunni framsækna stefnu hvernig haga skuli uppbyggingu verndaðs vinnustaðs og um leið endurhæfingu og annarri þjónustu við fólk með fötlun á Akranesi. Laga starfið að þeim breytingum sem átt hafa sér stað á þeim rúmum 30 árum frá því að núverandi hús að Dalbraut 10 var byggt.
Bæjarstjórn Akraness brást skjótt við og tókst að finna bráðabirgðahúsnæði þangað sem starfsemin flutti skömmu eftir brunann. Því gafst kærkomið ráðrúm til þess að vanda vel til verka við endurskipulagningu. Um það verður vart deilt að flestir hefðu viljað að stefnumótunin hefði gengið hraðar fyrir sig. Það þýðir ekki að fást um það nú.
Notendaráð um málefni fatlaðs fólks á Akranesi hefur frá upphafi þessarar stefnumótunar hvatt til þess að sem flestir kostir yrðu skoðaðir við fyrirhugaða uppbyggingu jafnvel þó slíkt kallaði á meiri tíma til undirbúnings og lengri framkvæmdatíma. Jafnframt hefur ráðið ítrekað hvatt til samstöðu um málið í bæjarstjórn Akraness.
Ýmsir kostir í uppbyggingu Fjöliðjunnar hafa verið ræddir í bæjarstjórn en um þá hefur ekki verið nauðsynleg samstaða líkt og Notendaráðið hefur lagt áherslu á og er það miður.
Á fundi bæjarstjórnar Akraness þann 14. desember 2021 var samþykkt samhljóða uppbygging Samfélagsmiðstöðvar á Dalbraut 8 og sérstök bygging nýs áhaldahúss bæjarins þar sem endurvinnslu á vegum Fjöliðjunnar yrði einnig ætlaður staður. Með uppbyggingu Samfélagsmiðstöðvar er sameinuð á besta stað í bænum ýmis starfsemi á vegum bæjarfélagsins sem fram að þessu hefur dreifst víða og ekki verður séð annað en fari vel saman. Þar er Fjöliðjunni ætlað mikið rými sem hannað verður samkvæmt öllum nútímakröfum. Það sem mest er um vert er að í Samfélagsmiðstöðinni skapast tækifæri til að undirstrika að á Akranesi sé samfélag án aðgreiningar. Þessi ákvörðun er mjög metnaðarfull og nýtur fulls stuðnings Notendaráðsins þrátt fyrir að hún kosti um eins árs lengri byggingartíma en endurbygging og stækkun núverandi húss Fjöliðjunnar.
Það er afar mikilvægt að hlúa að þeirri samstöðu er myndast hefur um uppbyggingu Samfélagsmiðstöðvar. Ég trúi að þar muni Notendaráð ekki liggja á liði sínu. Ekki síst til þess að tryggja að ekki verði frekari tafir á málinu en þegar er orðið.
Umræða um Fjöliðjuna má aldrei eiga sér upphaf og endi í húsagerð. Hún verður alltaf að snúast um að starfsemi hennar og þjónusta verði ávallt í fremstu röð. Þannig tryggjum við best samfélag án aðgreiningar á Akranesi.
Halldór Jónsson
Höfundur er formaður Notendaráðs um málefni fatlaðs fólks á Akranesi.