Tilkynning frá Vestra staðfestir ráðningu Jóns Þórs sem þjálfara ÍA

Jón Þór Hauksson mun taka við þjálfarastarfinu hjá karlaliði ÍA í knattspyrnu. Þetta kom fyrst fram í tilkynningu sem birt var á vef Vestra á Ísafirði þar sem að Jón Þór var við störf sem þjálfari.

Skömmu eftir að tilkynningin frá Vestra fór í loftið sendi ÍA frá sér tilkynningu þar sem að ráðningin var staðfest.

Knattspyrnufélag ÍA hefur ráðið Jón Þór Hauksson sem þjálfara meistaraflokks karla til næstu þriggja ára. Jón Þór þekkir starfsemi félagins vel og er kunnugt um þær áherslur sem knattspyrnustarfið á Akranesi byggir á. Það er félaginu sönn ánægja að endurnýja samstarf við Jón Þór og mikið gleðiefni að fá hann aftur heim á Skagann.

Jón Þór starfaði síðast fyrir knattspyrnufélagið árið 2017, þá sem aðstoðarþjálfari og yfirþjálfari. Hann hefur síðan öðlast mikla reynslu sem nýtist vel í starfi sem þjálfari meistaraflokks karla hjá ÍA.

„Við Skagamenn erum mjög ánægð að fá Jón Þór til að taka við liðinu. Við viljum þakka Vestra fyrir að heimila ÍA að ráða Jón Þór til starfa og gerum okkur grein fyrir að hann var í áhugaverðu starfi á Ísafirði. Jón Þór þekkir okkar starf og áherslur vel. Við erum sannfærð um að hann er sá þjálfari sem leiðir okkur á sigurbraut og kemur ÍA í fremstu röð í íslenskri knattspyrnu. Það er stutt í mót, en Jón Þór gengur að góðu búi, félagið er vel rekið og fagfólk í öllum stöðum. Ég hlakka mikið til komandi sumars.“, segir Eggert Herbertsson, formaður Knattspyrnufélags ÍA.

„Ég vil byrja á því að þakka Vestra fyrir sýndan skilning og að gefa mér kost á að taka við mínu uppeldisfélagi. ÍA er félag sem allir vilja leiða og ég er stoltur af því að stjórn félagsins leitaði til mín. Framtíð knattspyrnunnar á Akranesi er björt, margar stjörnur íslenskrar knattspyrnu koma frá Akranesi og efniviðurinn er góður. Ég tek við öflugum og vel þjálfuðum leikmannahópi. Mér til aðstoðar hjá félaginu er til staðar teymi reynsumikilla og vel menntaðra þjálfara og ég hlakka til samstarfsins. Mitt fyrsta verk verður að hitta samstarfsfólk og leikmannahópinn til að kynna mínar áherslur. “ segir Jón Þór Hauksson, þjálfari meistaraflokks ÍA í knattspyrnu karla.

Framundan eru spennandi tímar í knattspyrnunni á Akranesi þar sem byggt verður á gildum félagsins en þau eru metnaður, vinnusemi, þrautseigja, virðing og agi.

Nánar hér:

Í tilkynningu Vestra kemur eftirfarandi fram:

„Jón Þór Hauksson hefur samið við ÍA um að taka við þjálfun liðsins.
Jón Þór óskaði sjálfur eftir því að fá losna undan samning.
Vestri og ÍA náðu samkomulagi sín á milli og mun Jón Þór því láta strax af störfum.“

Jón Þór hefur áður komið að þjálfun karlaliðs ÍA en hann var aðstoðarþjálfari liðsins þegar Gunnlaugur Jónsson var aðalþjálfari og hann tók síðan við liðinu undir lok keppnistímabilsins 2017 eftir að Gunnlaugur hætti þar störfum.

Eins og áður hefur komið fram er Jóhannes Karl Guðjónsson hættur sem þjálfari ÍA en hann réði sig til starfa í þjálfarateymi A-landsliðs karla hjá KSÍ.

Jón Þór var samningsbundinn Vestra á Ísafirði en hann tók við þjálfun liðsins um mitt tímabil í fyrra og náði góðum árangri með félagið.

Eggert Herbertsson formaður Knattspyrnufélags Akraness sagði fyrr í dag í samtali við fréttavefinn 433.is að Vestri hefði gefið ÍA leyfi til þess að ræða við Jón Þór og það verkefni hafi verið í ferli.

Eins og áður segir náði Jón Þór Haukson fínum árangri með lið Vestra – sem fór alla leið í undanúrslit Mjólkurbikarkeppni KSÍ s.l. haust.

Liðið endaði í 5. sæti í næst efstu deild á síðasta tímabili undir hans stjórn.

Hann hefur þjálfað hjá ÍA um margra ára skeið – en hann var yfirþjálfari yngri flokka í mörg ár og stýrði meistaraflokksliði ÍA árið 2017 eftir að Gunnlaugur Jónsson lét af störfum.

Jón Þór var þjálfari A-landsliðs kvenna og kom liðinu í úrslitakeppni Evrópumótsins sem fram fer í sumar.

En áður en hann tók við landsliðsþjálfarastarfinu var hann aðstoðarþjálfari meistaraflokksliðs Stjörnunnar sem sigraði í Mjólkurbikarkeppni KSÍ árið 2018.