Keppendur úr röðum ÍA halda áfram að ná góðum árangri í kraftlyftingum. Um s.l. helgi fór fram keppni í klassískum lyftingum á Reykjavíkurleikunum, RIG – sem er alþjóðlegt mót sem fram hefur farið undanfarin fimmtán ár.
Sylvía Ósk Rodriguez bætti sig um 5 kg. í hnébeygju og lyfti þar þyngst 150 kg. Í bekkpressu lyfti hún 80 kg. og 162,5 kg í réttstöðulyftu sem er bæting um 2,5 kg.
Samanlagður árangur hennar var 392,5 kg. sem gáfu 75,16 stig og 6. sætið í kvennaflokki.
Helgi Arnar Jónsson lyfti þyngst 230 kg. í hnébeygju, 122,5 kg. í bekkpressu og 270 kg. í réttstöðulyftu.
Þyngsta lyftan í réttstöðulyftunni er jöfnun á hans besta árangri. Samanlagður árangur Helga var 622,5 kg sem gáfu honum 89,83 stig og 5. sætið í karlaflokki. Helgi er jafnframt að létta sig niður um þyngdarflokk þannig að líkamsþyngd hans er nú töluvert lægri en á s.l. mótum.
Einar Örn Guðnason lyfti þyngst 287,5 kg. í hnèbeygju sem fóru léttilega upp, 180 kg. í bekkpressu og 282,5 kg. í réttstöðulyftu sem einnig flugu upp.
Samanlagður árangur hans var 750 kg. sem gáfu honum 89,56 stig og 6. sætið í karlaflokki.
Kristín Þórhallsdóttir, Íþróttamaður Akraness undanfarin tvö ár, valdi það að taka sér frí frá þessu móti eftir að hafa tekið þátt á stórmótum í lok síðasta árs, HM í október og EM í desember. Hún ætlar að keppa á Íslandsmótinu í mars á þessu ári og á Heimsmeistaramótinu í byrjun júní. Kristín sigraði á RIG árið 2021 en hún náði frábærum árangri á síðasta ári sem skilaði henni í þriðja sæti í kjörinu á Íþróttamanni ársins 2021.
Árangur Kristínar á síðasta ári var eftirfarandi: Evrópumeistari 2021, Bronsverðlaunahafi á HM. Gull í hnébeygju á EM. Gull í bekkpressu á EM. Gull í réttstöðulyftu á EM. Brons í hnébeygju á HM
Evrópumet í hnébeygju með 220 kg. Evrópumet í samanlögðu með 560 kg, en það er fjórði besti árangur sem náðst hefur í þessum flokki í sögunni. Íslandsmeistari 2021. Bætt öll Íslandsmet á árinu í sínum þyngdarflokki og sigraði á Reykjavíkurleikunum 2021