Ragnar býður sig fram á ný og vill leiða lista Framsóknar og frjálsra

Ragnar Baldvin Sæmundsson hefur hug á því að leiða lista Framsóknar og frjálsra í næstu bæjarstjórnarkosningum á Akranesi.

Þetta kemur fram í pistli sem Ragnar Baldvin skrifar á fésbókarsíðu sína.

Ragnar Baldvin kom inn í bæjarstjórn í síðustu kosningum fyrir fjórum árum og hefur verið í meirihluta bæjarstjórnar frá þeim tíma. Hér fyrir neðan má lesa pistil Ragnars.

Síðast liðin tæp fjögur ár hef ég setið í bæjarstjórn Akraness og hefur þetta verið gríðarlega skemmtilegur og lærdómsríkur tími.

Á tímabilinu hef ég gegnt formennsku í skipulags- og umhverfisráði, setið í skóla- og frístundaráði, verið varamaður í bæjarráði og velferðar- og mannréttindaráði (fyrstu tvö árin) þá hef ég verið fulltrúi Akraneskaupstaðar í stjórn Faxaflóahafna auk setu í starfshópum.

Það hefur verið nóg að gera á þessu tímabili, en ég hef brennandi áhuga á verkefnunum og finnst hlutverk bæjarfulltrúans ótrúlega skemmtilegt og gefandi (jafnvel þó að maður fái öðru hverju aðeins að heyra það).

Miklu hefur verið áorkað á tímabilinu og enn fleiri verkefni í vinnslu sem ég hef mikla trú á og er virkilega spenntur fyrir, þessum verkefnum langar mig til að fylgja áfram eftir.

Elsa Lára hefur gefið það út að hún muni ekki leiða lista Framsóknar og frjálsra í komandi kosningum. Í kjölfarið lagðist ég undir “feldinn” (í mjög stutta stund) og komst að þeirri niðurstöðu að ég ætla að gefa kost á mér til þess að leiða framboðslistann í vor, en ég hef mikla trú á þeim verkefnunum sem framundan eru og veit fyrir hvað ég stend og vill standa fyrir.

Ég er þakklátur fyrir það traust sem mér hefur verð sýnt og vona að svo verði áfram.
Að lokum langar mig að þakka Elsu Láru (sem er þó ekki alveg hætt) fyrir samstarfið undanfarin ár, en ósérhlífið og duglegt fólk eins og hún er mikilvægt í pólitísku starfi.