Starfsmenn Þróttar ehf. með góðverk dagsins

Það er vetrarlegt um að litast á Akranesi og töluvert af snjó víðsvegar um bæinn.

Snjómokstur hefur gengið vel í dag og svo vel að starfsmenn Þróttar ehf. hafa komið íbúum skemmtilega á óvart með framtakssemi og dugnaði.

Þróttur ehf. bauð lægst í verkefnið snjómokstur 2020 til 2025 þegar verkefnin voru boðin út árið 2020.

Fyrirtækið sér um vetrarþjónustu á götum og bílastæðum stofnana á Akranesi og einnig á göngu og hjólaleiðum.

Í morgun tók starfsmaður frá Þrótti ehf. þá skemmtilegu ákvörðun að moka alla leið inn að dyrum á fjölbýlishúsinu þar sem að Skagafréttir eru með aðstöðu – við Brúarflöt.

Þar með fór hreyfistund dagsins út um gluggann hjá ritstjóra Skagafrétta sem var með það á aðgerðalista dagsins að koma snjónum af gangstéttinni.

Skagafréttir senda starfsmönnum Þróttar ehf. góða strauma í verkefnum dagsins.