Nýtt hringtorg fyrirhugað á gatnamótum Akranesvegar og Akrafjallsvegar

Akraneskaupstaður hefur óskað eftir því við Vegagerð ríkisins að hefja ferli við undirbúning á nýju hringtorgi við Akranesveg.

Þetta kemur fram í fundargerð skipulags – og umhverfisráðs.

Í bókun ráðsins segir að Skógahverfi á Akranesi sé í hraðri uppbyggingu og því mikilvægt útfrá eftirfarandi sjónarmiðum að hringtorg komi sem allra fyrst:

Mikilvægt að tvær útleiðir séu úr Skógahverfi gagnvart umferð.

Við hringtorg er áætlaður tengipunktur lagna hjá Veitum, m.a. er varða Skógahverfi.

Gönguleið upp í Flóahverfi er áætluð að fari yfir/ eða undir Akranesveg við hringtorg.

Af ofangreindu má vera ljóst að til að viðhalda þeim uppbyggingaráformum sem eru uppi hjá Akraneskaupstað að hringtorg komi sem allra fyrst.

Ef af þessum framkvæmdum verður þá verður hringtorgið staðsett á núverandi gatnamótum Akranesvegar og Akrafjallsvegar.

Þess ber að geta að hvíta línan á kortinu er aðeins til viðmiðunar en ekki er búið að gefa það út hvar væntanlegur vegur frá nýja hringtorginu mun tengjast Skógarhverfinu.