Það styttist í bæjarstjórnarkosningar fari fram á Akranesi en kosið verður þann 14. maí 2022 eða eftir 100 daga.
Framboðslistar hafa ekki verið birtir en það mun gerast á allra næstu vikum.
Á undanförnum árum hefur verið hægt að fylgjast með bæjarstjórnarfundum á Akranesi í beinni útsendingu á internetinu (Youtube).
Fjölmörg bæjar – og sveitarfélög bjóða upp á slíkar útsendingar.
Í samantekt Skagafrétta hjá nokkrum bæjar – og sveitarfélögum kemur það fram að áhugi kjósenda er ekki mikill á þessum útsendingum.
Í úrtakinu voru 17 nýjustu bæjarstjórnarfundir hjá sjö bæjarfélögum skoðaðir.
Þar kemur í ljós að aðeins 0,4% af íbúum Akraness sem voru á kjörskrá árið 2018 (5182) fylgjast með gangi mála á bæjarstjórnarfundum Akraneskaupstaðar á veraldarvefnum.
Eins og áður segir voru tæplega 5200 á kjörskrá árið 2018 og að meðaltali eru 21 einstaklingar sem skoða útsendingar frá bæjarstjórnarfundum.
Hæst hefur áhorfið á Akranesi farið í 45 áhorf og það lægsta er 9 áhorf.
Þess má geta að í bæjarstjórn Akraness eru 9 kjörnir fulltrúar, og starfsmenn hvers fundar eru að öllu jöfnu 2-3.
Í Reykjavík er þetta hlutfall 0,52% eða 465 á hvern fund að meðaltali, í Mosfellsbæ og Reykjanesbæ er hlutfallið 0,8%, og á Akureyri er ekki nema 0,2% hlutfall af kjósendum sem gefa sér tíma í bæjarmálin í slíkum útsendingum.
Mestur er áhuginn í Vestmannaeyjum og í Grindavík.
Í Eyjum er hlutfallið 3,5% eða 112 að meðaltali og í Grindavík er hlutfallið um 4% eða 88 að meðaltali.