Fjöliðjan flytur tímabundið í leiguhúsnæði við Smiðjuvelli

Bæjarráð Akraness samþykkti á fundi sínum í gær að gera leigusamning til þriggja ára fyrir Fjöliðjuna að Smiðjuvöllum 28.

Leigusamningur er gerður við Línuvélar ehf. og tekur leigusamningurinn gildi þann 1. maí 2022 og út febrúarmánuð 2025.

Bæjarráð samþykkti einnig að fela bæjarstjóra frekari úrvinnslu málsins og undirritun samningsins. Bæjarstjórn Akraness á eftir að samþykkja þessa tillögu.

Fjöliðjan hefur verið með starfssemi sína í leiguhúsnæði hjá Trésmiðjunni Akri frá því að eldur kom upp í aðstöðu Fjöliðjunnar við Dalbraut í maí árið 2019. Á allra síðustu mánuðum hefur starfssemi Fjöliðjunnar verið á fleiri stöðum á Akranesi, má þar nefna Garðavelli við golfvöllinn og í nýsköpunarmiðstöðinni Breið.

Akraneskaupstaður hefur gefið það að út að Fjöliðjan verði hluti af nýrri Samfélagsmiðstöð sem byggð verður á Dalbrautarreit. Einnig hefur það komið fram í fundargerðum hjá Akraneskaupstað að móttaka einnota umbúða verði fundinn framtíðarstaður í nýju „Áhaldahúsi“ sem byggt verður á næstu misserum.

Eins og áður hefur komið fram á skagafrettir.is hafa nokkrar ríkisstofnanir á Akranesi hug á því að flytja starfsstöðvar sínar í húsnæðið við Smiðjuvelli 28. Þar má nefna Landmælingar, Vinnueftirlitið, Vinnumálastofnun og Sýslumanninn á Vesturlandi.

http://localhost:8888/skagafrettir/2022/02/08/rikisstofnanir-a-akranesi-skoda-flutning-i-husnaedi-vid-smidjuvelli/