Stefnt að því að sameina vinnuhluta Fjöliðjunnar og Búkollu í nýju áhaldahúsi

Bæjarráð Akraness hefur samþykkt erindisbréf fyrir stýrihóp sem mun leggja fram tillögur vegna uppbygginar á framtíðarhúsnæði fyrir vinnuhluta Fjöliðjunnar, Búkollu og áhaldahúss Akraneskaupstaðar.

Í fundargerð bæjarráðs kemur fram að byggja eigi nýtt hús við Kalmansvelli 5 – og mun starfssemi vinnuhluta Fjöliðjunnar, Búkollu og áhaldahúss vera í þessu nýja húsi.

Velferðar- og mannréttindaráð Akraness hafði áður samþykkt drögin að erindisbréfi starfsshópsins.

Gert er ráð fyrir að í stýrihópnum verði tveir fulltrúar bæjarstjórnar og annar þeirra gegni formennsku, fulltrúar Fjöliðjunnar, áhaldahúss og Búkollu og fulltrúar frá viðkomandi fagsviðum þ.e. velferðar- og mannréttindasviði og skipulags- og umhverfissviði.

Er stýrihópnum ætlað að leggja fyrir tillögur á sameiginlegum fundi bæjarráðs, skipulags- og umhverfisráðs og velferðar- og mannréttindaráðs ásamt öðrum hagsmunaðilum eigi síðar en 2. apríl næstkomandi.

Fjöliðjan er vinnustaður þar sem boðið er upp á verndaða vinnu og endurhæfingu fyrir þá sem þess þurfa og leita eftir þjónustu. Í Fjöliðjunni á Akranesi fer fram fjölbreytt vinna og starfsfólkið tekst á við mörg ólík verkefni.

Nytjamarkaðurinn Búkolla hefur verið starfandi á Akranesi síðan árið 2009. Starfsemi Búkollu er við Vesturgötu 62 og felst í endurnýtingu fatnaðar og alls þess sem að heimilishaldi lýtur. Búkolla er sjálfstæð eining sem rekinn er undir Fjöliðjunni og þar býðst fólki á örorku og endurhæfingu störf.

Áhaldahúsið við Laugarbraut er í húsnæði sem var áður slökkviliðsstöð. Áhaldahúsið er m.a. miðpunktur í starfi vinnuskóla Akraness yfir sumartímann og þar er einnig hjartað í daglegum rekstri á skipulags – og umhverfissviði sem Alfreð Þór Alfreðsson stýrir. Dýraeftirlitið er einnig með aðsetur í áhaldahúsinu.

http://localhost:8888/skagafrettir/2021/12/16/ahaldahus-akraneskaupstadar-og-endurvinnsla-fjolidjunnar-verda-sameinud-i-nyju-husi/