Færeyski landsliðsmaðurinn í knattspyrnu, Kaj Leo í Bartalsstovu, hefur samið við karlalið ÍA.
Fréttavefurinn fotbolti.net greindi fyrst frá en Knattspyrnufélag ÍA sendi frá sér tilkynningu í kjölfarið þar sem að frétt fobolti.net var staðfest.
Kaj Leo er vel þekkt stærð í íslenskum fótbolta en hann hefur leikið á Íslandi allt frá árinu 2016, með FH, ÍBV og Val.
Hann er þrítugur að aldri og leikur sem vængmaður. Hann hefur leikið alls 109 leiki á Íslandi og skorað alls 15 mörk.
Kaj var samningslaus en hann hefur æft með Víkingum úr Reykjavík að undanförnu og skoraði m.a. glæsilegt mark gegn ÍA í fotbolti.net mótinu á dögunum.
Karlalið ÍA hefur safnað liði á undanförnum vikum og leikmannahópur liðsins er töluvert breyttur og nýr þjálfari í brúnni, Jón Þór Hauksson.
Frá Val komu þeir Johannes Vall og Christian Køhler. Vall 29 ára gamall varnarmaður og hefur leikið í efstu deild í Svíþjóð en hann hefur verið hjá Val undanfarin misseri.
Køhler er danskur og 25 ára gamall. Hann er miðvallarleikmaður og hefur leikið í efstu deild í heimalandinu og Svíþjóð áður en hann fór í Val.
Áður hafði ÍA samið við varnarmanninn Aron Bjarka Jóepsson sem er 32 ára varnamaður og kemur úr röðum KR.
Englendingurinn Alexander Davey og Hollendingurinn Wout Droste, verða áfram í herbúðum ÍA á næstu leiktíð.
Ólafur Valur Valdimarsson, er hættur, og óvíst er með hvar Arnar Már Guðjónsson mun leika en samningur hans við ÍA rann út á síðustu leiktíð.
Markvörðurinn Dino Hodzic er skráður í Kára og finnski varnarmaðurinn Elias Alexander Tamburini er ekki lengur á samningi hjá ÍA.
Morten Beck Andersen fór aftur um mitt tímabil til FH eftir að hafa verið á láni hjá ÍA stóran hluta tímabilsins.
Fjórir leikmenn sem hafa verið í stórum hlutverkum hjá ÍA á undanförnum misserum erum farnir frá ÍA, Aron Kristófer Lárusson fór í KR.
Sindri Snær Magnússon samdi við Keflavík, Ísak Snær Þorvaldsson, sem var kjörinn besti leikmaður ÍA á lokahófi félagsins hefur samið við Breiðablik, og Óttar Bjarni Guðmundsson, sem var fyrirliði ÍA á síðustu leiktíð, fór aftur í uppeldisfélagið sitt Leikni í Reykjavík.