ÍATV fékk fjölmiðlaverðlaun KSÍ 2021

Knattspyrnusamband Íslands veitti í dag öflugum hópi sjálfboðaliða úr röðum ÍATV fjölmiðlaverðlaun sambandsins fyrir árið 2021. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt er á vef KSÍ. Þar kemur eftirfarandi fram.


Fjölmiðlaverðlaun KSÍ fyrir árið 2021 hlýtur ÍA TV vegna vefútsendinga frá knattspyrnuleikjum. Verðlaunin eru jafnan afhent í aðdraganda ársþings ár hvert og það var Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ sem afhenti fulltrúum ÍA TV verðlaunin.

Umhverfi beinna sjónvarpsútsendinga frá knattspyrnuleikjum hefur tekið nokkrum stakkaskiptum á undanförnum árum og er óhætt að segja að vefútsendingar (eða netstreymi) séu farnar að leika stórt hlutverk. Knattspyrnufélög eða stuðningsmannahópar þeim tengdir hafa mörg hver stigið það skref að streyma beint frá sínum leikjum á eigin miðlum (þar sem það er mögulegt vegna réttindamála), sem er virkilega góð og verðmæt þjónusta við stuðningsmenn, sér í lagi á Covid-tímum þar sem ekki hefur verið sjálfsagt að stuðningsmenn geti mætt á völlinn, og við höfum séð hraða framþróun á þessu sviði. ÍA TV, sem er einmitt stýrt og rekið af hópi stuðningsmanna ÍA, hefur staðið þar framarlega og það verður spennandi að fylgjast með áframhaldandi vexti vef-sjónvarpsstöðva íslenskra félaga á næstu árum.

Meðal þeirra sem hlotið hafa fjölmiðlaverðlaun KSÍ eru Íþróttadeild RÚV, Sjónvarp Símans, SportTV, Hörður Magnússon fótboltafréttamaður og Hafliði Breiðfjörð.

Örn Arnarson, einn forsprakka ÍATV hafði þetta að segja eftir afhendingu verðlaunanna: „Það er fyrst og fremst gríðarlegur heiður sem okkur er sýndur með þessum verðlaunum. Um allt land eru ótal aðilar eins og við að sýna beint frá íþróttalífinu í sínu nærumhverfi og um leið að skrásetja íþróttasöguna. Við lítum á þessi verðlaun sem viðurkenningu á því að þetta starf er þarft, það er mikilvægt og mikils metið. Þetta er okkur mikil hvatning til þess að halda áfram að verða betri, en um leið hlýtur þetta að verða öllum hinum sem sinna viðlíka verkefnum hvatning, því þessi verðlaun eru í raun fyrir okkur öll sem stöndum í þessu.“

ÍATV er netsjónvarpsstöð sem starfrækt er af sjálfboðaliðum og sendir út á YouTube. Stöðin er stutt af Íþróttabandalagi Akraness auk þess sem velunnarar hafa lagt ÍATV lið með frjálsum framlögum. Fyrstu útsendingar ÍATV fóru í loftið með frumstæðum hætti í nóvember 2015. Síðan þá hefur stöðin hægt en markvisst sótt í sig veðrið með vönduðum og faglega metnaðarfullum útsendingum frá margvíslegum viðburðum, þó mest frá meistaraflokksleikjum Knattspyrnufélags ÍA í karla- og kvennaflokki, sem og leikjum Knattspyrnufélagsins Kára.

Sérfræðingar ÍATV hafa einnig valið og verðlaunað bestu og efnilegustu leikmenn ársins hjá ÍA og Kára. Útsendingar ÍATV frá knattspyrnuleikjum eru í dag orðnar á þriðja hundraðið.

ÍATV hefur m.a. sýnt leiki í Unglingadeild Knattspyrnusambands Evrópu (UEFA Youth League), Inkasso-deildinni, Lengju-deildinni, Mjólkurbikarnum og Fótbolta.net-mótinu.

Áhorfendur stöðvarinnar eru í Evrópu, Suður- og Norður Ameríku, Afríku, Asíu og Ástralíu.

Áskrifendur eru um tvö þúsund og heildaráhorf er komið yfir 430 þúsund.Í

ATV hefur ekki eingöngu sent út fótboltaleiki heldur einnig körfubolta, fimleika, golf, keilu, klifur, badminton, amerískan fótbolta, Norðurálsmótið og val á íþróttamanni ársins hjá ÍA.

Jafnframt má nefna fimm þátta skemmtiþáttaröðina Að koma saman er bannað sem gerð var 2020, spennuþrungna maraþonútsendingu frá sprengingu og fellingu sementsstrompsins 2019 – sem horft hefur verið á um 50 þúsund sinnum og myndklippu sem fór á flakk um heiminn af glæsimarki Arnars Más Guðjónssonar sumarið 2018, sem yfir tvær milljónir hafa notið.

Allar útsendingar, upptökur og samantektir ÍATV eru aðgengilegar á iatv.is og YouTube og eru ókeypis.