Rakel Óskarsdóttir, sem leiddi framboðslista Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórnarkosningunum 2018 hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér í komandi bæjarstjórnarkosningum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rakel sem hún birti á fésbókarsíðu sinni. Það er ljóst að töluverðar breytingar verða á framboðslistum í kosningunum í vor. Bæjarfulltrúinn Einar Brandsson hefur lýst því yfir að hann ætli að gefa kost á sér áfram en ekki er ljóst hvernig listi Sjálfstæðisflokksins verður skipaður.
Elsa Lára Arnardóttir, sem var í efsta sæti lista Framsóknar og frjálsra, ætlar ekki að gefa kost á sér – og Bára Daðadóttir, sem var í þriðja sæti á lista Samfylkingarinnar ætlar einnig að draga sig í hlé á þessum vettvangi.
Yfirlýsing Rakelar er hér fyrir neðan í heild sinni.
Árið 2014 urðu ákveðin tímamót hjá mér þegar ég ákvað að stíga mín fyrstu skref í sveitarstjórnarmálum á Akranesi. Ákvörðunin var töluverð áskorun sem átti eftir að vinda verulega upp á sig næstu árin.
Í byrjun þess árs kom Ólafur Adolfsson, vinur minn, til mín og bauð mér að taka 5. sæti á lista Sjálfstæðismanna fyrir bæjarstjórnarkosningar. Ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um og þáði það strax, en viðurkenni að ég hugsaði þá að ég hefði vilja vera ofar á listanum og örugg inn í bæjarstjórn.
En kosningabaráttan og úrslit kosninganna árið 2014 voru stórkostleg þar sem vel samstilltur hópur frambjóðenda með sterku baklandi Sjálfstæðisflokksins náðu meirihluta í bæjarstjórn Akraness.
Árið 2018 tók ég að mér oddvitasætið fyrir flokkinn og leiddi öflugan hóp frambjóðenda til bæjarstjórnarkosninga. Það ár náðum við 4 kjörnum fulltrúum inn í bæjarstjórn og jukum við okkur fylgi frá árinu 2014.
Alveg frábær árangur góðs liðs en þrátt fyrir það urðu örlög okkar að sitja í minnihluta það kjörtímabil, sem er ekki síður krefjandi verkefni bæjarfulltrúa.Nú líður senn aftur að kosningum og eftir að hafa íhugað málið mjög vel er ákvörðun mín nú endanleg.
Ég hef tekið ákvörðun um að sækjast ekki eftir því að leiða lista Sjálfstæðismanna fyrir komandi kosningar. Að taka þátt í bæjarmálunum fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akranesi var heillaskref fyrir mig. Ég hef fengið mikla og fjölbreytta reynslu og unnið að ótal verkefnum sem ég er ákaflega stolt af bæði fyrir samfélagið Akranes og Sjálfstæðisflokkinn.
Samhliða því að vera bæjarfulltrúi hef ég verið svo lánsöm að fá mörg tækifæri á að sitja í hinum ýmsum stjórnum hér heima sem og erlendis. Á þessum árum hef ég kynnst mörgu góðu fólki í stjórnsýslunni og á pólitíska sviðinu. Ég er svo lánsöm að hafa eignast fjölmarga vini fyrir lífstíð, vináttu sem kannski aldrei hefði orðið til nema fyrir þátttöku mína í pólitík.
Ég kveð sveitarstjórnarvettvanginn, sem bæjarfulltrúi, sátt og veit að Sjálfstæðisflokkurinn á Akranesi er sterkt afl og ríkt af öflugu fólki sem er tilbúið að taka við keflinu. Að því sögðu þakka ég öllu því góða fólki sem ég hef unnið með í gegnum árin á þessum vettvangi. Hvað framtíðin ber í skauti sér verður svo bara að koma í ljós Takk fyrir mig, ég er reynslunni ríkari.
Rakel Óskarsdóttir, fráfarandi oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akranesi.