Ísak AK 67 er nú í eigu stórútgerðarinnar Eskju á Eskifirði

Eiður Ólafsson, eigandi og skipstjóri á Ísak AK 67, hefur selt bátinn og kvótann til Eskju ehf á Eskifirði.

Þetta kemur fram á vefnum Aflafrettir.is.

Þar kemur einnig fram að þessi viðskipti eru ekki ný af nálinn en samkomulagið var gert í ágúst árið 2021.

Ísak AK 67 hefur verið gerður út frá Akranesi frá árinu 2001 en Eiður keypti bátinn árið 2005 og verið með mörg járn í eldinum hvað varðar veiðar. Neta -, skötusels -, grásleppu – og makrílveiðar hafa verið í aðalhlutverki hjá Eiði á Ísak á undanförnum árum. Báturinn er stálbátur rétt um 22 tonn en lengd bátsins er 14 metrar.

Í samtali við Aflafrettir.is segir Eiður að ástæðan fyrir sölunni séu að aflaheimildir séu að skerðast og að erfitt sé að manna áhöfnina vegna kvaða um að stýrimaður sé um borð ef róður sé lengri en 14 tímar.

„Enginn stýrimaður með réttindi ræður sig á bát sem er með 70 tonna kvóta og að leiga á kvóta sé alveg komin út úr kortinu,“ segir Eiður m.a. við aflafrettir.is

Eldri sjómenn sem hafa verið á Ísak með Eiði undanfarin ár og munu þeir taka við keflinu á grásleppuvertíðinni sem er framundan en útgerð bátsins er alfarið í höndum á Eskju á Eskifirði.

Á árinu 2021 landaði Ísak rúmlega 90 sinnum í Akraneshöfn.