Keppendur frá Klifurfélagi ÍA stóðu sig vel á móti í Kaupmannahöfn

„Um síðustu helgi fór fram Norðurlandamót ungmenna í klifri.

Mótið var haldið í Bison Boulders í Kaupmannahöfn og tók stór hópur klifrara frá Íslandi þátt, þar af sjö klifrarar frá Klifurfélagi ÍA. Flest þeirra voru að klifra á erlendum vettvangi í fyrsta skipti og því var mikil spenna í hópnum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Klifurfélagi ÍA.

Undankeppnin fór fram laugardagsmorguninn 26. febrúar og hátt í 100 klifrarar frá fjórum löndum voru skráðir til leiks. Þar voru klifraðar átta leiðir með flass formi, en átta klifrarar frá Íslandi komust áfram eftir erfiða keppni.

Skagaklifrararnir Sverrir Elí Guðnason (Youth B) og Sylvía Þórðardóttir (Youth A) voru meðal þeirra sem komust áfram í úrslit og kepptu því aftur að kvöldi laugardags.

Úrslitalotan var ansi strembin og leiðirnar í erfiðari kantinum.

Sverrir Elí fór inn í úrslit með fjóra toppa í átta leiðum. Sverrir átti ágæta tilraun í fyrstu leið, hröð hlaupaleið sem breyttist í tæpar jafnvægishreyfingar, en var of seinn að finna réttan takt til að grípa zone-gripið og var óheppinn að toppa ekki leið nr. 2, þar sem hann datt í lokahreyfingunni. Sverri Elí hafnaði því í níunda sæti með 1 zone í fimm tilraunum sem er flott niðurstaða á fyrsta móti erlendis.

Keppni í kvennaflokki var mjög jöfn en Sylvía var fjórða inn í úrslitin og því í góðri stöðu fyrir lokasprettinn. Hún klifraði vel og náði zone í annari og þriðju leið og þurfti til þess níu tilraunir, en einungis þrjár tilraunir skildu að Sylvíu og bronssætið. Fimmta sæti varð því niðurstaðan sem er hennar besti árangur til þessa og lofar góðu fyrir komandi Norðurlandamót.

Framundan hjá Klifurfélagi ÍA er Bikarmeistarmót Íslands sem fram fer eftir tvær vikur og Norðurlandamótið í grjótglímu sem fram fer í Gautaborg þriðju helgina í mars, en þangað fara þau Sylvía, Sverrir Elí og Þórkatla Þyri Sturludóttir sem keppir í B-flokki stúlkna.

Hér fyrir neðan er myndband frá undanúrslitum mótsins.

Hér má finna heildarúrslit fyrir alla flokka.