Tvö gullmerki og fjögur heiðursmerki voru afhent á aðalfundi KFÍA

Knattspyrnufélag ÍA veitti á dögunum viðurkenningar til fyrrum leikmanna félagsins og stjórnarfólks.

Athöfnin fór fram á aðalfundi félagsins.

Tveir fyrrum leikmenn fengu Gullmerki KFÍA, Kristín Aðalsteinsdóttir og Benedikt Valtýsson.

Alexander Högnason, Margrét Ákadóttir, Steindóra Steinsdóttir og Sævar Freyr Þráinsson fengu öll heiðursmerki félagsins.

Hér fyrir neðan er texti frá Knattspyrnufélaginu um þá einstaklinga sem fengu viðurkenningar á aðalfundinum.

Kristín Aðalsteinsdóttir – Gullmerki.

Stína Aðalsteins er ein af þeim konum sem ruddu brautina í íslenskri kvenna knattspyrnu. Stína byrjaði snemma að stunda knattspyrnu og dró aðrar stúlkur með sér í fótbolta út um allan Skaga. Hún var alltaf að kenna og hjálpa stelpum sem vildu ná langt og var mikil fyrirmynd þeirra. Á þessu tíma tíðkaðist á 9 ára stelpur mættu á meistaraflokks æfingu því það voru engir yngri flokkar. Stína var síðan árið 1981 valin til að spila fyrsta opinbera landsleik Íslands móti Skotlandi og hefur því skrifað sig á spjöld íslenskrar knattspyrnusögu svo um munar. Stína hætti því miður allt of snemma að keppa og var mikill missir af henni. Knattspyrnufélagi ÍA er heiður að beita Kristínu Aðalssteinsdóttur Gullmerki Knattspyrnufélagsins ÍA.

*Á hverju ári veitir KFÍA Stínu – og Donnabikarinn til leikmanna félagsins sem hafa sýnt framúrskarandi árangur í íþróttinni samhliða því að vera fyrirmyndar einstaklingur á öllum sviðum félagsins. Verðlaunin eru veitt leikmönnum úr 3. eða 4. flokki ÍA ár hvert. Stínubikarinn er nefndur í höfuðið á Kristínu Aðalsteinsdóttur. Stínubikarinn á að vera hvatning til ungra stelpna að stefna hátt og vinna sér sæti í meistaraflokki ÍA og landsliðinu eins og Stína gerði á sínum tíma.

Benedikt Valtýsson – Gullmerki.

Benni Valtýs er meðal allra dyggustu stuðningsmanna knattspyrnufélagsins ÍA. Hann er uppalinn Akurnesingur, fæddur 1946 og fór í gegnum alla yngri flokkana í knattspyrnu á sínum tíma og lék síðan sinn fyrsta leik með Akranesliðinu 1963. Hann festi sig í sessi innan liðsins 1965 og lék til ársins 1975 er hann lagði skóna á hilluna. Hann lék 185 leiki og var meðal leikjahæstu leikmanna liðsins frá upphafi þegar ferlinum lauk. Benedikt var Íslandsmeistari 1970, 1974 og 1975 og lék í fjórum bikarúrslitaleikjum. Þá var hann tvívegis bikarmeistari 2.flokk 1964 og 1965.Benedikt sinnti félagsmálastörfum bæði í kringum knattspyrnuna og innan ÍA og kom einnig að þjálfun m.a. sem aðstoðarþjálfari ÍA liðsins 1978. Knattspyrnufélagi ÍA er heiður af því að veita Benna Valtýs Gullmerk Knattspyrnuféagsins ÍA.

Margrét Ákadóttir – Heiðursmerki.

Magga Áka er hefur hlotið heiðursmerki knattspyrnufélagsins ÍA. Magga byrjaði ung að aldri að æfa fótbolta og var alltaf stutt í keppnisskapið hjá henni. Hún spilaði sinn fyrsta meistaraflokks leik fyrir ÍA árið 1989 þá 15 ára gömul. Leikirnir urðu samtals 137 og skoraði Magga 15 mörk í þeim leikjum. Magga spilaði allan sinn feril fyrir ÍA fyrir utan síðasta tímabilið árið 2001 sem hún spilaði fyrir Breiðablik. Magga á 10 A landsleiki fyrir Íslands hönd sem og 4 U-21 leiki. Þá hefur Magga starfað ötuglega fyrir knattspyrnufélagið, þjálfað stelpur í flestum flokkum sem og þjálfað meistaraflokk kvenna á tímabili. Magga hefur einni starfað í stjórnum og ráðum á vegum félagsins og vill Knattspyrnufélag ÍA þakka Möggu fyrir hennar störf.

Alexander Högnason – Heiðursmerki.

Alli Högna var frábær leikmaður ÍA á gullaldarskeiði félagsins frá 1992 til 1996. Alli spilaði sinn fyrsta leik með ÍA árið 1986 á móti ÍBV á Akranesvelli, þá 18 ára gamall. Síðan urðu leikirnir 204 í meistaraflokki og skoraði hann 30 mörk í þeim leikjum. Vinningshlutfall hans í þessum 204 leikjum er 57% sem verður að teljast ansi gott. Alli spilaði 3 A landsleiki fyrir Íslands hönd og 18 leiki með yngri landsliðum Íslands. Knattspyrnufélag ÍA vill þakka Alla Högn fyrir hans framlag til Knattspyrnunnar á Akranesi. 

Sævar Freyr Þráinsson – Heiðursmerki.

Sævar er Skagamaður í húð og hár, hefur alist upp með fótboltanum og skilur mikilvægi knattspyrnunnar fyrir Akranes. Sævar tók virkan þátt í yngri flokka starfi félagsins en þurfti að láta frá sér sína uppáhalds stöðu til lítt þekktra manna eins og hann segir sjálfur. Sævar hefur síðan komið að starfi félagsins með margs konar hætti, bæði sem styrktaraðili, forsvarsmaður í Club 71 og ekki síst sem stjórnarmaður í knattspyrnufélaginu þá sem varaformaður félagsins. Sævar hefur lagt mikið og óeigingjarnt starf á sig fyrir Knattspyrnufélagið ÍA og vill félagið þakka Sævari fyrir hans framlag til knattspyrnunnar á Akranesi sem og hvetja hann áfram til góðra verka.

Steindóra Steinsdóttir – Heiðursmerki.

Steindóra eða Dódó hefur verið ötull leikmaður, stuðningsmaður og starfsmaður knattspyrnufélagsins til margra ára. Dódó hóf knattspyrnuiðkun ung að aldri undir miklum áhrifum frá föður sínum og afa má ætla. Dódó á skráða knattsyrnu leiki með meistaraflokki kvenna frá 1989 til 2009 eða yfir 20 ár og hefur spilað 135 leiki þar 112 í efstu deild. Lang flesta af þessum leikjum hefur hún spilað fyrir ÍA eða 118 leiki. Þá hefur Dódó spilað 6 landsleiki fyrir Íslands hönd og 4 undir 21 árs leiki. Á seinni árum hefur Dódó tekið þátt í að móta ungar knattspyrnukonur sem og þjálfa meistaraflokk félagsins. Við viljum þakka Dódó fyrir hennar framlag til knattspyrnunnar á Akranesi.