Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, hefur ákveðið að bjóða sig fram til formennsku í Starfsgreinasambandi Íslands. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu VLFA.
Þing Starfsgreinasambands Íslands verður haldið daganna 23. til 25. mars 2022 á Akureyri og á þessu þingi verður m.a. kosið til formanns, varaformanns og í framkvæmdastjórn SGS.
Vilhjálmur segir að hópur formanna innan SGS og fulltrúar sem munu sitja þingið hafi haft samband við sig og skorað á hann að bjóða sig fram til formanns SGS. Hann segir ennfremur að formennska SGS sé hlutastarf og muni ekki hafa áhrif á starf hans sem formaður í VLFA.
Starfsgreinasamband Íslands (SGS) er fjölmennasta landssamband launafólks á Íslandi og stærsta landssambandið innan ASÍ, með samtals um 72.000 félagsmenn. Meginhlutverk SGS er að sameina verkalýðsfélög í baráttunni fyrir bættum kjörum, standa vörð um áunnin réttindi, vera leiðandi afl innan verkalýðshreyfingarinnar og vettvangur umræðu um þróun samfélagsins í þágu launafólks.
Starfsgreinasambandið var stofnað 13. október árið 2000 við samruna Verkamannasambands Íslands, sem stofnað var árið 1964, Þjónustusambands Íslands, vegna starfsfólks í veitinga- og gistihúsum, sem stofnað var árið 1972 og Landssambands iðnverkafólks frá 1973. Stofnfélög Starfsgreinasambandsins voru 50 að tölu en í dag eru aðildarfélögin 19 talsins.
Hér fyrir neðan er tilkynningin frá Vilhjálmi.
Í ljósi þessarar áskorunnar og einnig í ljósi þess að Björn Snæbjörnsson núverandi formaður SGS hefur ákveðið að bjóða sig ekki fram hef ég tekið ákvörðun um að bjóða mig fram sem formann Starfsgreinasambands Íslands á komandi þingi SGS.
Það liggur fyrir að Starfsgreinasamband Íslands gegnir lykilhlutverki þegar kemur að því að semja um kaup og kjör fyrir verka-og láglaunafólk á íslenskum vinnumarkaði og því skiptir máli að æðsta forysta sambandsins hafi ætíð kjark, vilja og þor til að berjast af alefli fyrir bættum kjörum verka-og láglaunafólki á íslenskum vinnumarkaði. Rétt er að geta þess að Starfsgreinasamband Íslands er fjölmennasta landsamband verkafólks á Íslandi og stærsta landsambandið innan ASÍ með samtals um 72.000 þúsund félagsmenn.
Ég tel mig hafa víðtæka reynslu og þekkingu hvað verkalýðsbaráttu áhræir og vera því rétti aðilinn til að takast á við það verkefni sem er að gegna stöðu formanns SGS.
Áherslumál mín sem forystumaður í verkalýðshreyfingunni á liðnum 17 árum hafa m.a. verið þessi:
• Ég hef ætíð lagt ofuráherslu að samið sé í formi krónutöluhækkanna, enda liggur fyrir að prósentuhækkanir eru aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og gerir ekkert annað en auka á ójöfnuð á íslenskum vinnumarkaði.
• Hef barist gegn öllum hugmyndum að komið verði á nýju vinnumarkaðsmódeli í anda Salek samkomulagsins enda gengur það út á að skerða og takmarka samnings- og verkfallsrétt launafólks. Mikilvægt fyrir launafólk að muna að samningsfrelsi og verkfallsréttur launafólks er hornsteinninn í íslenskri verkalýðshreyfingu og þann rétt þarf að verja með öllum tiltækum ráðum.
• Tryggja þarf réttarstöðu launafólks gagnvart grófum kjarasamningsbrotum með skýrum févítis ákvæðum í lögum sem og tryggja að launafólk tapi ekki launakröfum sínum á grundvelli „tómlætis“ fyrir dómstólum.
• Berjast þarf áfram gegn okurvöxtum, verðtryggingu og græðgisvæðingu fjármálakerfisins
• Styrkja húsnæðismarkaðinn og stöðu leigjenda m.a. með því að setja leiguþak
• Enduskoða lífeyrissjóðskerfið þar sem hagsmunir sjóðsfélaga verði hafðir að leiðarljósi
• Létta á skattbyrði þeirra tekjulægstu
• Taka þarf á arðsemisgræðgi fyrirtækja enda eru það á endanum launafólk og neytendur sem þurfa að greiða fyrir arðsemismarkmið fyrirtækja í formi hærra vöruverðs og lægra kaupgjalds.
Þetta eru nokkur atriði sem ég hef barist fyrir á liðnum árum og tel brýnt að halda áfram og fái ég stuðning þingfulltrúa í kjöri til formanns í SGS mun það klárlega hjálpa til í þeirri baráttu.
Það er rétt að geta þess að allar kjararannsóknir sýna að í Lífskjarasamningum var stigið skref í átt að því lagfæra kjör lágtekjufólks, en þau skref þurfa svo sannarlega að verða fleiri og kröftugri á næstu misserum. Enda er það lýðheilsumál að lágmarkslaun dugi frá mánuði til mánaðar og lágtekjufólk geti haldið mannlegri reisn á launum sínum en þvi miður er því ekki til að dreifa eins og staðan er í dag.
Það er ekkert náttúrulögmál að lágmarkslaun dugi ekki fyrir nauðþurftum frá mánuði til mánaðar, eða hér viðgangist okurvextir, okurleiga, húsnæðisskortur, og hátt vöruverð á öllum sviðum. Nei, ekkert af þessu er náttúrulögmál heldur mannanna verk sem hægt er að breyta eina sem þarf er kjarkur, vilji og þor!
Það er hins vegar mikilvægt að allt verka- og láglaunafólk átti sig á því að réttinda- og kjarabarátta er eilífðarverkefni sem lýkur aldrei!
Það er rétt að taka það fram að formennska í SGS hefur ætíð verið hlutastarf og hefur því ekki áhrif á starf mitt sem formaður í Verkalýðsfélagi Akraness enda fer vinna við að vera formaður stéttarfélags og formanns SGS mjög vel saman. Það hefur ætíð tíðkast að formaður frá einu af aðildarfélögum SGS hefur gengt þessu starfi samhliða starfi sínu hjá sínu stéttarfélagi.