Á dögunum hélt drengja-hluti Club71 aðalfund sinn. Club71 er félagsskapur úr árgangi fólks fæddum 1971 á Akranesi og er markmiðið að sameina það að gleðjast og láta gott af sér leiða í leiðinni.
Á aðalfundinn að þessu sinni mætti fjölda góðra gesta en boðið var upp á kótlettur í raspi og tilheyrandi meðlæti.
Heiðursgestir voru tónlistarparið Regína Ósk og Svenni Þór sem fluttu nokkur góð lög en tóku einnig nokkur lög með fundarmönnum við mikinn fögnuð.
Á fundinn mætti einnig Lena Daníelsdóttir en klúbburinn afhenti henni fyrsta framlagið í söfnun sem hún er að hleypa af stokkunum fyrir bróður sinni, Pétur Daníelsson, sem glímir við erfið veikindi.
Pétur er sonur Rakelar Rutar Þórisdóttur sem er einmitt úr árgangi 71 á Akranesi. Hann fæddist með alvarlegan hjartagalla og hefur þurft að glíma við ýmislegt í lífinu.
Í september árið 2020 lenti Pétur, þá aðeins 27 ára gamall, í því að fá mjög alvarlegt heilablóðfall.
Pétur lamaðist á hægri síðu og var í hjólastól fyrstu vikurnar og átti mjög erfitt með að tala og tjá sig. Þarna þurfti hann að læra allt uppá nýtt. Er hann nú búinn að vera í langri endurhæfingu sem hefur sem betur fer gengið ágætlega en hann var mjög lengi að ná að getað gengið aftur og hann haltrar enn og er með hamlaða hreyfigetu. Pétur er tveggja barna faðir.
Það var því heiður fyrir klúbbinn að leggja fram fyrsta framlagið í söfnunina. Þeir sem vilj rétta fram hönd til hjálpar Pétri þá er það hægt að gera með styrk í gegnum eftirfarandi reikning:
Kt: 150694-3029
Reikningsnúmer: 0537-14-400623
Club71 eða árgangur 71 á Akranesi er óvenju samheldinn og hefur staðið fyrir ýmsum góðgerðarmálum og menningarviðburðum á Akranesi síðustu 15 árin eða svo.
Ber þar hæst Þorrablót Skagamanna sem hópurinn kom í gang og sá um í 10 ár samfellt, en þessi viðburður hefur gefið af sér nokkrar miljónir árlega sem runnið hafa óskipt til góðgerðar- og íþróttamála á Akranesi.
Einnig mætti nefna Brekkusöng bæjarhátíðarinnar Írskra daga sem er bæjarhátíð Akraness, en þennan viðburð sækja þúsundir manna á ári hverju í boði hópsins og samstarfsaðila.
Ýmsir einstakir viðburðir hafa verið haldnir á vegum félagsskaparins í gegnum tíðina en hópurinn fékk Menningarverðlaun Akraneskaupstaðar árið 2016.
Síðasta vor stóð félagsskapurinn fyrir viðburðinum „Stokkið fyrir Svenna.“
Tilgangurinn var að safna áheitum til kaupa á sérstöku rafhjóli fyrir einn úr árgangnum, Sveinbjörn Reyr, sem lenti í alvarlegu slysi í fyrra. Viðburðurinn fór langt fram úr væntingum og 177 stökkvarar stukku í sjóinn af smábátabryggjusvæðinu á Akranesi. Rúmlega 8 milljónir króna söfnuðust en markmiðið var 2-3 milljónir.