Íslandsbanki styður áfram við kraftmikið starf Knattspyrnufélags ÍA

Knattspyrnufélag ÍA og Íslandsbanki hafa á undanförnum árum átt gott samstarf og nýverið var skrifað undir nýjan samning til næstu tveggja ára.

Frá vinstri: Magnús Brandsson útibússtjóri Íslandsbanka, Magnea Guðlaugsdóttir, Aldís Ylfa Heimisdóttir, Jaclyn Poucel Árnason og Geir Þorsteinsson framkvæmdastjóri KFÍA.

Íslandsbanki verður áfram viðskiptabanki félagsins auk þess að styðja með öflugum hætti starfsemi félagsins, meistaraflokka og yngri flokka. Keppnisbúningur félagsins mun bera merki Íslandsbanka.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

„Í samningi aðila er lögð áhersla á fagmennsku í starfi Knattspyrnufélags ÍA, s.s. í uppeldis-, jafnréttis- og forvarnarmálum. Viðstaddar undirritun samningsins voru þjálfara meistara-, 2. og 3. flokks kvenna, þær Magnea Guðlaugsdóttir, Aldís Ylfa Heimisdóttir og Jaclyn Poucel Árnason. Sú staðreynd að konur fari með öll þessi störf, sem eru fátítt í knattspyrnunni, endurspeglar vel áherslur Knattspyrnufélags ÍA,“ segir í tilkynningunni.