„Að innan brenn“ – hér getur þú heyrt, séð og upplifað nýtt stemningslag um Akranes

Nýverið var áhugavert lag frumflutt sem tileinkað er Akranesi, Skagamönnum nær og fjær og þeirri uppbyggingu sem er fyrirhuguð á Sementsreitnum.

Skagmaðurinn Óli Valur Steindórsson, framkvæmdastjóri Fasteflis ehf., á frumkvæðið að þessu verkefni.

Tónlistarmennirnir landsþekktu Jógvan Hansen og Vignir Snær Vigfússon sömdu lagið.

Hallgrímur Ólafsson, betur þekktur sem „Halli Melló“ samdi textann.

„Að innan brenn“ var frumflutt á kynningu Fasteflis ehf. eftir að fyrsta skóflustungan var tekin í Sementsreitnum þar sem að fyrirtækið ætlar að reisa 115 íbúðir í fyrsta byggingaráfanga svæðisins

Óli Valur sagði við frumflutning lagsins að hugmyndin hafi orðið til í aðdraganda bikarúrslitaleiks ÍA og Víkings í meistaraflokki karla s.l. haust.

„Í aðdraganda úrslitaleiksins þá leið mér þannig að „Skaganum“ vantaði lag í þessum dúr. Ég fékk Jógvan vin minn til að taka þetta verkefni að sér og sannfærði gleðigjafann „Halla Melló“ um að skrifa textann. Það er okkar von að þetta lag verði í nánustu framtíð sungið við sem flest tækifæri á allskonar viðburðum á Akranesi. Hvort sem það eru íþróttaviðburðir, götugrillveisla, stórafmæli – svo eitthvað sé nefnt. Að mínu mati er þessi texti sem Hallgrímur Ólafsson samdi alveg frábær. Texti sem á eftir að lifa lengi ásamt laginu,“ sagði Óli Valur þegar lagið var frumflutt í Gamla Kaupfélaginu nýverið.

Kór Akraneskirkju og Kvennakórinn Ymur tóku þátt í verkefninu með tónlistarfólkinu og lagahöfundum.

Í myndbandinu eru myndbrot frá ýmsum tímum á Akranesi.

Framtíðin kemur einnig við sögu í myndbandinu.

Þar má sjá ýmsar áhugaverðar hugmyndir og „fantasíur um framtíðarsýn Sementsreitsins

Að innan brenn:

Baráttan er, í brjósti mér
og hefur þar búið alla tíð.
Hjarta mitt berst, og allt getur gerst
er göngum við fram í næsta stríð.
Að innan brenn fyrir Skagamenn.

Fjallið, fjaran, nesið bjarta.
Þar sem ég ávallt á mitt skjól.
Skaginn á minn hug og hjarta.
Akranes er mitt höfuðból.

Markmiðið skýrt, selja sig dýrt,
saman við eigum töframátt.
Við vitum sem er, sýnum karakter,
göngum sem eitt í sömu átt.
Og ég enn, innan brenn,
fyrir Skagamenn.

Fjallið, fjaran, nesið bjarta.
Þar sem ég ávallt á mitt skjól.
Skaginn á minn hug og hjarta.
Akranes er mitt höfuðból.

Fjallið, fjaran, nesið bjarta.
Þar sem ég ávallt á mitt skjól.
Skaginn á minn hug og hjarta.
Akranes er mitt höfuðból.

Fjallið, fjaran, nesið bjarta.
Þar sem ég ávallt á mitt skjól.
Skaginn á minn hug og hjarta.
Akranes er mitt höfuðból.