Þrír klifrarar úr röðum ÍA tóku þátt á fjölmennasta Norðurlandamóti allra tíma

Þrír keppendur frá ÍA tóku þátt á Norðurlandamótinu í grjótglímu sem fram fór í Gautaborg dagan 19.-20. mars.

Keppendur voru alls 226 og hafa þeir aldrei verið fleiri á Norðurlandamótinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Klifurfélagi ÍA.

Ísland sendi 20 klifrara til leiks og keppendurnir þrír úr röðum Klifurfélags ÍA voru þau Sylvía Þórðardóttir (Youth A), og Sverrir Elí Guðnason og Þórkatla Þyrí Sturludóttir (Youth B).

Youth-flokkar kepptu með svokölluðu „flass“ formi, klifruðu átta leiðir og höfðu til þess 90 mínútur eða fimm tilraunir.

Undankeppni mótsins fór fram um laugardagsmorgun og hóf B-flokkur keppnina.

Mótið var firnasterk og allar átta leiðir mótsins í erfiðari kantinum, reyndu mikið á líkamlegan styrk frekar en tæknilega kunnáttu.

Sverrir Elí náði tveimur „zone“ gripum og var ekki langt frá að toppa tvær leiðir, en náði ekki endagripinu.

Þórkatla Þyrí, sem er á yngra ári í B-flokki, náði einu „zone“ gripi en aðrar leiðir reyndust henni ofviða að þessu sinni.

Sverrir Elí og Þórkatla Þyrí luku því keppni og geta verið stolt af sinni frammistöðu.

Í A-flokki klifraði Sylvía og átti nokkrar góðar tilraunir í leiðir mótsins. Hún náði örugglega tveimur „zone“ gripum og toppaði eina leið í þremur tilraunum, sem þó dugði ekki áfram í úrslit.

Íslenski hópurinn, sem er tiltölulega ungur og óreyndur, kom tveimur klifrurum áfram í úrslit, en þau Óðinn Arnar Freysson (Junior) og Agnes Matthildur Helgadóttir Folkmann (Youth B) enduðu í tíunda sæti í sínum flokki.

Mótið fer í reynslubankann hjá íslenska hópnum sem nú undirbúa sig flest undir Íslandsmeistaramótið sem fer fram eftir 10 daga í Reykjavík.