Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar árið 2022 fór fram á Grand Hótel Reykjavík miðvikudaginn 23. mars.
Skagakonan Bjarnheiður Hallsdóttir, sem hefur gegnt formennsku í samtökunum var endurkjörin sem formaður til næstu tveggja ára.
Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) eru hagsmunasamtök allra fyrirtækja sem starfa í ferðaþjónustu. Samtökin voru stofnuð 11. nóvember 1998 og eru byggð á grunni Sambands veitinga- og gistihúsa og lögðu önnur hagsmunasamtök sem störfuðu innan ferðaþjónustunnar niður starfsemi sína á sama tíma.
Í dag er fjöldi fyrirtækja í SAF. Það eru flugfélög, ferðaskrifstofur, gististaðir, veitingahús, bílaleigur, hópbifreiðafyrirtæki, afþreyingarfyrirtæki svo og önnur fyrirtæki sem telja sig til ferðaþjónustufyrirtækja.
Tilgangur Samtaka ferðaþjónustunnar er:
- að ferðaþjónusta á Íslandi byggi á virðingu fyrir landi og þjóð
- að heildarhagsmuna fyrirtækja í ferðaþjónustu sé gætt
- að samkeppnishæf rekstrarskilyrði og heilbrigð samkeppni sé styrkt
- að nýsköpun og fagmennska séu stoðir sem framtíð ferðaþjónustunnar hvíli á
- að innviðir ferðaþjónustunnar styðji við framþróun hennar
- að SAF séu sameiningartákn og talsmaður fyrirtækja í ferðaþjónustu
- Nánari upplýsingar um tilgang samtakanna er að finna í lögum SAF.
SAF starfa með öðrum hagsmunasamtökum og eru þau ein af 8 aðildarsamtökum Samtaka atvinnulífsins sem stofnuð voru 15. september 1999 með samruna Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambandsins.