Akraneskaupstaður samþykkir að kaupa „húsið“ á Aggapalli

Bæjarráð Akraness hefur samþykkt að kaupa hús sem stendur við Aggapall við Langasand.

Fram kemur í fundargerð ráðsins að stefnt er að áframhaldandi nýtingu mannvirkisins í þágu starfsemi Akraneskaupstaðar og íþróttahreyfingarinnar en húsið er víkjandi á skipulagi vegna hugmynda um frekari uppbyggingu á Langasandsreitnum.

Haraldur Sturlaugsson er eigandi hússins sem hefur verið nýtt undir margskonar starfsemi allt frá árinu 2011 þegar framkvæmdum við Aggapall lauk.

Akraneskaupstaður mun greiða 3,5 milljónir kr. fyrir húsið sem hefur m.a. verið nýtt sem miða – veitinga – og söluskáli á heimaleikjum ÍA á Akranesvelli.