Akraneskaupstaður mun ekki fara í sérstakt ráðningarátak vegna sumarafleysinga

Akraneskaupstaður mun ekki fara í sérstakt ráðningarátak hvað varðar sumarafleysingar hjá Akraneskaupstað. Þetta kemur fram í fundargerð frá bæjarráði.

Á þeim fundi var greinargerð frá mannauðsstjóra vegna mögulegra sumarafleysinga hjá Akraneskaupstað til umfjöllunar.

Í fundargerðinni kemur eftirfarandi fram:

„Undanfarin tvö ár hefur ríkið verið með sérstakar stuðningsaðgerðir vegna COVID-19 áhrifa á vinnumarkaðinn (atvinnuátak) og greitt hluta launagreiðsla vegna viðbótarráðninga sumarafleysingafólks hjá opinberum stofnunum, bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Nú liggur fyrir að þær aðstæður eru ekki lengur fyrir hendi og sambærilegt átak af hendi ríkisins verður ekki í ár. Bæjarráð Akraness telur að miðað við stöðu á vinnumarkaði nú sé ekki sérstakt tilefni til ráðningarátaks af hálfu opinberra aðila.“