Bæjarráð Akraness hefur samþykkt að dælubíll fyrir Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar verði keyptur. Öryggistækið mun kosta 92 milljónir kr. sem er 22 milljónum kr. yfir kostnaðaráætlun bæjarins.
Ólafur Gíslason & Co var eina fyrirtækið sem lagði inn tilboð í rammaútboði ríkiskaupa sveitarfélaga vegna kaupa á dælubílum fyrir starfsemi slökkviliða. Akraneskaupstaður tók þátt í þessu útboði.
Í bókun bæjarráðs kemur fram að ráðið leggur áherslu á að bíllinn komist sem fyrst í rekstur sem gæti orðið á árinu 2023 en takist það ekki er kostur á að afhending og greiðsla verði í janúar 2024. Gert er ráð fyrir að kostnaðarskipting á milli Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðarsveitar verði samkvæmt gildandi samstarfssamningi sveitarfélaganna.