Markaðsherferðin „Það er stutt!” hefur nú verið sett í loftið. Um ræðir herferð sem Akraneskaupstaður stendur fyrir og miðar að því að kynna landsmenn fyrir þeim kostum sem bærinn býr yfir og laða þannig enn fleiri að. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Akraneskaupstað.
Herferðin hverfist annars vegar um þá staðreynd að á milli höfuðborgarsvæðisins og Akranes sé afar stutt, rétt um 40 mínútna skottúr, og hins vegar um að á Akranesi er hreinlega stutt í allt.
Sem dæmi um það sem tekið er sérstaklega fyrir í herferðinni er hve stutt er í stórbrotnar náttúruperlur og útivistarsvæði, fjölbreytt mannlíf, fjölskylduvænt samfélag, öflugt tómstunda- og íþróttastarf og þá miklu uppbyggingu sem á sér stað í bænum, bæði nú þegar og ekki síður í nánustu framtíð.
„Við erum stolt af fjölskylduvæna strandbænum okkar og viljum endilega að fleiri fái að njóta þeirra lífsgæða sem við höfum uppá að bjóða. Nú stendur yfir mikil íbúðauppbygging í bænum og bæjarfélagið stendur fyrir stækkun grunnskóla, byggingu nýs leikskóla, byggingu íþróttahúss ásamt fjárfestingum í fleiri grunninnviðum sem styðja við frekari stækkun bæjarins. Við leituðum til byggingaraðila á Akranesi sem tóku afskaplega vel í okkar hugmyndir um að fara þessa leið og markaðssetja bæinn. Við erum ákaflega þakklát fyrir þau frábæru viðbrögð og hlökkum mjög til að sjá hvert þetta leiðir okkur,” segir Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akranes.
Markaðsefnið er unnið í samstarfi við auglýsinga- og almannatengslastofuna Ampere og framleiðslufyrirtækið Tjarnargötuna auk þess sem Datera, stafrænt birtingahús, sér um að efnið birtist á réttum stöðum. Onno sá um hönnun á lendingarsíðunni, 300akranes.is/ Akraneskaupstaður kostar gerð herferðarinnar en eftirtalin eru þau fyrirtæki sem koma að borðinu og greiða birtingakostnað:.
A1 Hús ehf.
Byggingarfélagið Bestla ehf.
Blikksmiðja Guðmundar ehf.
Ferrum Fasteignir ehf.
Nordic holding ehf.
Raf-Pro ehf.
Sjammi ehf.
SF Smiðir ehf.
Vogir og lagnir ehf.
ÞG Verk ehf.
Uppbygging ehf
Fyrri hluti herferðarinnar er sem fyrr segir farin í loftið en seinni hluti hefst eftir um tvær vikur með mynd og hljóðefni og verður í birtingu fram á sumar en í haust verður þráðurinn tekinn upp að nýju og haldið áfram að kynna landsmenn alla fyrir þeim mýmörgu tækifærum sem bíða þeirra á Akranesi.