Gísli Gíslason, fyrrum bæjarstjóri Akraness, er oddviti Akraneslistans sem birti í dag framboðslista fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 2022. Hlédís Sveinsdóttir, verkefnastjóri og fjölmiðlakona skipar annað sætið og Ólafur Páll Gunnarsson útvarpsmaður er í þriðja sæti listans.
Um er að ræða nýtt framboð og mun Akraneslistinn nota listabókstafinn A í næstu kosningum.
Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og frjálsir hafa nú þegar birt framboðslista fyrir kosningarnar í vor en Samfylkingin á eftir að tilkynna sinn lista.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem er í heild sinni hér fyrir neðan.
Á listanum eru 18 einstaklingar, 10 karla og 8 konur.
Áhugaverð fjölskyldu – ættartengsl eru á listanum en frændurnir Ólafur Páll Gunnarsson og Ísólfur Haraldsson skipa 3. og 4. sæti listans. Móðir Ísólfs, Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrum ráðherra og forseti bæjarstjórnar, skipar heiðurssætið. Tengdasonur Ólafs Páls, Valentin Fels Camilleri, er einnig á listanum.
Ólafur Páll er einnig formaður Miðbæjarsamtakanna Akratorgs sem stofnuð voru nýverið – og eru fjölmargir úr þeim samtökum á lista Akraneslistans.
Listinn er þannig skipaður:
- Gísli Gíslason – fyrrverandi bæjarstjóri og forstjóri Faxaflóahafna
- Hlédís Sveinsdóttir – Verkefnastjóri og fjölmiðlakona
- Ólafur Páll Gunnarsson – Útvarpsmaður og nemi í Skapandi greinum við Háskólann á Bifröst
- Ísólfur Haraldsson – Athafna, veitinga og umboðsmaður
- Karen Lind Ólafsdóttir – Ökukennari
- Gísli Jónsson – Framkvæmdastjóri og athafnamaður
- Vera Knútsdóttir – Framkvæmdastýra og saumakona
- Ingi Björn Róbertsson – Blikksmiður og skemmtikraftur
- Einar Skúlason – fyrrum æskulýsfulltrúi og rekstrarstjóri vinnuskólans á Akranesi
- Anna Guðrún Ahlbrecht – Innanhúsarkitekt og háskólanemi
- Guðni Hannesson – Ljósmyndari og kortagerðamaður
- Þorbjörg María Ólafsdóttir – Umsjónarkennari og nemi í Skapandi greinum við Háskólann á Bifröst
- Valentin Fels Camilleri – BJJ þjálfari og kennari
- Alexander Aron Guðjónsson – Rafvirki, áhrifavaldur og lífskúnstner
- Helena Guttormsdóttir – Myndlistarmaður og lektor við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri
- Kristján A. Reiners Friðriksson – Tónmenntakennari í Grundaskóla og söngvari í harðkjarnapönkhljómsveitinni Gaddavír
- Tinna Grímarsdóttir – Framkvæmdastjóri og prentsmiður
- Ingibjörg Pálmadóttir – Fyrrverandi heilbrigðisráðherra og forseti bæjarstjórnar
Nýtt framboð á Akranesi. Gísli Gíslason fyrrum bæjarstjóri leiðir listann. Athafnafólk til áhrifa á Akranesi – Ingibjörg Pálmadóttir frv. ráðherra í heiðurssætinu. A – fyrir Akranes. Nýtt framboð lítur dagsins ljós á Akranesi í dag – Akraneslistinn, með listabókstafinn A. Fólkið sem skipar sæti á listanum er með afar fjölbreyttan bakgrunn og mikla reynslu í pokahorninu, en deilir áhuga á að vilja styrkja innviði og starfa í þágu bæjarbúa. Akraneslistinn mun leggja áherslu á að láta verkin tala. Það þarf að hugsa um framtíðina og vera með skýra sýn til að skapa bænum sérstöðu og samkeppnishæfni, en það er ekki síður mikilvægt að huga að nútíðinni. Hvernig getum við gert það betra og skemmtilegra að búa á Akranesi í dag? Hvernig bætum við mannlífið og aukum þannig lífsgæði Akurnesinga á öllum aldri. Lífið er núna. Akraneslistinn vill stuðla að nýsköpun, fjölga störfum á Akranesi þannig að dagleg umferð milli Akraness og Reykjavíkur minnki á næstu árum en aukist ekki þó svo íbúum fjölgi. Þannig skapast tækifæri til að styrkja innviði, verslun, þjónustu og aukið mannlíf. Akraneslistinn vill byggja upp öflugt og gott samfélag fyrir alla aldurshópa. Akraneslistinn er óháður flokkapólitík, opinn og fullur af fjöri. Við erum á fullu að vinna í málefnaskrá listans – allar góðar hugmyndir vel þegnar. En meðal mála er fjölgun starfa á Akranesi og átak í atvinnustarfsemi tengdum skapandi greinum. Komdu og kynntu þér hvað Akraneslistinn stendur fyrir og segðu okkur frá þínum hugmyndum um betra Akranes. Við ætlum að taka á móti fólki á Bárunni brugghús (Bárugata 21) milli kl. 18.00 og 20.00 í kvöld. Þar verða léttar veitingar í boði Gísla Jónssonar sem skipar 6. sæti listans. Bruggmeistari Bárunnar, Ásgeir Sævarsson, sér til þess að allir verði glaðir. Oddvitinn Gísli Gíslason, Einar Skúlason, sem skipar 9. sæti og fleiri frambjóðendur ætla að taka lagið. |