Meistaraflokkur ÍA í kvennaflokki mun leika gegn Völsungi frá Húsavík í Lengjubikarkeppni KSÍ laugardaginn, 2. apríl.
Leikurinn fer fram í Akraneshöll kl. 14.00 og er hann jafnframt styrktarleikur fyrir Þuríði Örnu Óskarsdóttur, sem er frænka leikmanns í ÍA-liðinu og dóttir Skagamannsins Óskars Arnars Guðbrandssonar.
Dagbjört Líf, leikmaður ÍA, og Þuríður Arnar eru systkinabörn, en Hanna Þóra og Óskar Örn eru systkini.
Þuríður Arna er hugrökk bráðum tvítug stelpa sem hefur mátt þola meira en margur annar síðustu 18 árin. Hún hefur barist við heilaæxli frá tveggja ára aldri og virðist ekkert lát á þeirri baráttu. Mikil óvissa og endalaus bið eftir rannsóknum og niðurstöðum hefur einkennt líf hennar og fjölskyldu hennar. Meðfram lífsbáráttu sinni, endalausum krabbameinsmeðferðum, aukaverkunum og læknaheimsóknum þá er Þuríður í framhaldsskóla og stefnir á háskólann en hún útskrifast nú í vor úr Fjölbrautaskólanum í Breiðholti.
Hún hefur mjög gaman af því að föndra og hefur búið til allskona flotta hluti. Hún er svo dugleg og metnaðargjörn og hefur föndrið verið hennar leið til að skapa sér vettvang til að vinna og vera virk. Hún er mikill stuðbolti og þegar hún er hress og hefur orku að þá fer ekkert framhjá henni og litar hún tilveru allra í kringum sig.
Móðir Þuríðar Örnu deildi færslu fyrir rúmri viku síðan þar sem hún óskaði eftir stuðningi við að fjármagna útskriftarferð fyrir Þuríði Örnu til London að sjá Harry Potter safnið, Mamma mía söngleikinn og margt fleira.
Við viljum gera þessa ferð ógleymanlega fyrir Þuríði Örnu og hennar fólk og viljum styrkja þessa flottu stelpu.