Sylvía Íslandsmeistari – Gull – og silfurverðlaun á Íslandsmótinu í klifri

Keppt var um Íslandsmeistaratitla í klifri í gær og náðu keppendur úr Klifurfélagi ÍA flottum árangri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Klifurfélagi ÍA.

Íslandsmótið fór fram í Klifurhúsinu í Reykjavík. Fjórir keppendur úr röðum ÍA náðu að komast í gegnum undankeppnina og inn á sjálft Íslandsmótið.

Sylvía Þórðardóttir gerði sér lítið fyrir og stóð uppi sem Íslandsmeistari í flokki (Youth A) og hún náði silfurverðlaunum í opnum flokki þar fullorðnir kepptu einnig.

Beníta Líf Pálsdóttir og Sverrir Elí Guðnason höfnuðu í 5. og 6. sæti í Youth-B, og Rúnar Sigurðsson fékk bronsverðlaun í Youth-A.

Eins og áður segir keppti Sylvía (Youth-A) keppti Í Opnum flokki fullorðinna (Youth A/Junior/Senior). Hún var í góðri stöðu eftir undankeppnina, þar sem hún toppaði fimm af átta leiðum og fór inn í úrslit í öðru sæti. Í úrslitum kom hún ákveðin til leiks og toppaði fyrstu þrjár leiðir mótsins örugglega í fyrstu tilraun og náði Zone-gripi í þeirri síðustu, einnig í fyrstu tilraun. Lengra komst hún þó ekki og tryggði sé þar með sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í Youth-A, og silfurverðlaun í Opnum flokki fullorðinna.

Sylvia Þórðardóttir.