Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri Akraness segir að stór tíðindi séu í vændum hvað varðar atvinnumál á Akranesi.
Þetta kemur fram í viðtali við Sævar Frey sem birt var í kosningaumfjöllun Morgunblaðsins í þættinum Dægurmál.
Í þættinum er m.a. sagt frá því að gríðarleg uppbygging hafi átt sér stað á Akranesi á undanförnum árum og framtíðin sé áhugaverð – sérstaklega í ljósi þess að ferðaþjónustan á talsvert mikið inni á svæðinu.
„Tækifærin eru gríðarlega mörg og við höfum á undanförnum misserum unnið að því að fá hingað erlenda – og innlenda fjárfesta til þess að skoða þá möguleika sem eru hér á Akranesi. Við vitum að þessi vinna mun bera árangur en það er ekki hægt að greina frá því á þessum tímapunkti. Fyrirtækin sem um ræðir vilja halda trúnaði alveg þar til að þau hafa klárað sínar lokákvarðanir,“ segir Sævar Freyr m.a. annars.
Bæjarstjórnarkosningar fara fram 14. maí og þar verða þrír listar í framboði.
Sævar Freyr segir í viðtalinu að hann hafi áhuga á að halda áfram störfum sem bæjarstjóri en hann tók við embættinu árið 2017 af Regínu Ásvaldsdóttur.