Töluverðar breytingar eru á framboðslistum flokkanna sem bjóða fram krafta sína í bæjarstjórnarkosningunum 2022 á Akranesi – ef miðað er við listana árið 2018.
Þrír listar bjóða fram krafta sína þegar í sveitastjórnarkosningarnar fara fram laugardaginn 14. maí 2022.
Framsóknarflokkur og frjálsir, Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkur eru með framboðslista að þessu sinni.
Árið 2014 voru alls fimm framboðslistar á Akranesi þegar Vinstri hreyfingin grænt framboð og óháðir buðu fram og listi Bjartrar framtíðar náði einum fulltrúa inn í bæjarstjórn í þeim kosningum.
Vinstri græn og Björt framtíð hafa ekki boðið fram á Akranesi frá þeim tíma en fyrir fjórum árum var Miðflokkurinn með framboðslista á Akranesi.
Á framboðslista Framsóknar og frjálsra eru 10 konur og 8 karlar.
Fimm einstaklingar á listanum voru einnig í framboði fyrir fjórum árum. Það eru þau Ragnar Baldvin Sæmundsson, Liv Aase Skarstad, Elsa Lára Arnardóttir, Ellert Jón Björnsson og Þröstur Karlsson.
Ragnar Baldvin, sem er fertugur, leiðir listann í fyrsta sinn en hann var í öðru sæti listans þegar Elsa Lára var oddviti flokksins árið 2018.
Meðaldur frambjóðenda á lista Framsóknar og frjálsra er 38.9 ár. Yngsti frambjóðandinn á listanum er Þórdís Eva Rúnarsdóttir sem er 19 ára og Gestur Sveinbjörnsson er sá elsti en hann 79 ára.
Á framboðslista Sjálfstæðisflokksins eru 10 konur og 8 karlar.
Fimm einstaklingar á listanum voru einnig í framboði fyrir fjórum árum. Það eru þau Einar Brandsson, Þórður Guðjónsson, Daníel Þór Heimisson, Ólafur G. Adolfsson og Rakel Óskarsdóttir – en þau tvö síðastnefndu voru í forystu flokksins kosningunum fyrir fjórum árum þau eru í neðstu sætum listans að þessu sinni.
Líf Lárusdóttir er oddviti Sjálfstæðisflokksins, en hún hefur ekki verið áður í framboð. Líf er 31 árs og er yngsti oddvitinn á framboðslistunum þremur sem bjóða fram á Akranesi.
Meðaldur frambjóðenda á lista Sjálfstæðisflokksins er 40.5 ár. Yngsti frambjóðandinn á listanum er Helgi Rafn Bergþórsson sem er 19 ára og Elínbjörg Magnúsdóttir er sá elsti en hún er 73 ára.
Á framboðslista Samfylkingarinnar eru 9 konur og 9 karlar.
Alls eru átta einstaklingar á listanum á sem voru einnig í framboði fyrir fjórum árum. Það eru þau Valgarður Lyngdal Jónsson, Kristinn Hallur Sveinsson, Björn Guðmundsson, Guðríður Sigurjónsdóttir, Bára Daðadóttir, Uchechukwu Michael Eze, Margrét Helga Isaksen og Pétur Ingi Jónsson.
Valgarður Lyngdal var oddviti flokksins í síðustu kosningum og Kristinn Hallur var í fjórða sæti. Valgarður verður fimmtugur í september á þessu ári og er því elstur oddvita þeirra flokka sem bjóða fram á Akranesi.
Meðalaldur frambjóðenda á lista Samfylkingarinnar er 48,1 ár. Benedikt Júlíus Steingrímsson er yngstur, tvítugur að aldri, og Júlíus Már Þórarinsson er elstur, 78 ára.
Hér fyrir neðan má sjá hvernig framboðslistarnir voru skipaðir árið 2018.