Benedikt lét ökklabrot ekki stöðva sig – fór beint af sjúkrahúsinu og á leiksviðiðNemendur úr 10. bekk Grundaskóla komu, sáu og sigruðu í gær þegar söngleikurinn Hunangsflugur og Villikettir var frumsýndur fyrir troðfullum sal í Grundaskóla.

Áhorfendur skemmtu sér konunglega og hylltu leikara og alla þá sem að verkefninu koma í lok sýningar.

Það hefur margt gengið á í undirbúningin hópsins á undanförnum vikum og mánuðum – þar sem að ýmsar hindranir hafa staðið í vegi þeirra. Má þar nefna eitt stykki heimsfaraldur, og mikil veikindi vegna inflúensu á síðustu vikum.

Í gær, nokkrum klukkutímum fyrir frumsýninguna, kom enn eitt verkefnið upp sem þurfti að leysa.

Benedikt Ísar Björgvinsson – sem leikur eitt af aðalhlutverkunum í söngleiknum, er einnig leikmaður í 2. flokki ÍA í knattspyrnu.

Hann tók þátt í leik með ÍA á Íslandsmótinu kvöldið fyrir frumsýninguna.

Benedikt meiddist illa á ökkla í leiknum og í gær, rétt fyrir frumsýninguna, kom í ljós að um ökklabrot væri að ræða.

Benedikt lét það ekki stöðva sig, hann mætti á sviðið í gær, með gifs á hægra fæti, og hækjur sér til stuðnings.

Í stuttu máli þá leysti Benedikt hlutverk sitt með glæsibrag. Og á síðustu stundu þurfti að breyta fjölmörgum atriðum söngleiksins til þess að Benedikt gæti tekið þátt.

Myndasafn frá sýningunni @skagafrettir.is

„Ég hélt að þetta væri ekki svona alvarlegt, og ég kældi því bara ökklann eins og hægt var um kvöldið, fram á nótt og um morguninn. Þegar ég fann að það staðan var ekki betri, þá fór mamma með mig á sjúkrahúsið til að láta skoða þetta nánar, og þá kom þetta brot í ljós. Ég vildi láta reyna á að taka þátt í sýningunni – og það tókst bara ágætlega, með góðri aðstoð krakkanna á sviðinu. Ég finn aðeins til í ökklanum núna en þetta er allt í góðu,“ sagði Benedikt Ísar við Skagafréttir í gær eftir frumsýninguna.