Listin að læra – hvert af öðru

Kosningar 2022 – aðsend grein frá Líf Lárusdóttur.

Íslendingar eru snillingar í að finna upp hjólið. Það getur komið sér einkar vel, því í því felst ákveðin bjartsýni í bland við lauflétta „þetta reddast“ stemningu sem við þekkjum svo vel. Við erum einstaklingsþenkjandi þjóð og höfum keyrt á þeirri hugmyndafræði í hundruð ára. Stundum getur hins vegar verið skynsamlegt að horfa til heildarhagsmuna og skipuleggja hluti á stærri skala.

Ég hef víðtæka reynslu af því að fylgjast með sveitarfélögum fóta sig í úrgangsstjórnun, við að finna upp skilvirk kerfi og innleiða hjá sér. Því miður hafa mörg sveitarfélög gleymt að gæta að heildar samræmingu í úrgangsmálum eða hver kannast ekki við frasann: Við ætlum að fara þessa leið en gera þetta að okkar.

Lítil þjóð með eins stuttar boðleiðir og raun ber vitni á að geta boðið upp á betra skipulag til framtíðar. Síðustu misseri horfir sem betur fer til betri vegar þegar kemur að samræmingu í úrgangsmálum og ég vil ýta undir þessar áherslur.

Við eigum að geta bent á hluti sem önnur sveitarfélög gera vel og segja: Heyrðu, þetta er frábær hugmynd hjá nágrönnum okkar, við ætlum ekki bara að innleiða það hjá okkur heldur ætlum við að eiga samtalið við þau og lærdómspunktana frá þeim. Það er nefnilega ákveðin list í því fólgin að þurfa ekki að eigna sér allar hugmyndir, geta bent á, hrósað og lært – hvert af öðru og saman valið bestu lausnirnar. 

Talandi um umhverfismál, þá eru hér á Akranesi fjölmörg tækifæri ónýtt. Hér vantar tilfinnanlega grenndarstöðvar á nokkra staði í bænum sem myndu einfalda íbúum að losa sig við endurvinnsluefni með umhverfisvænni hætti en nú er í boði. Við höfum ekki boðið íbúum upp á ílát við heimili fyrir lífrænan úrgang líkt og mörg sveitarfélög hafa gert um áraraðir en nú erum við komin upp við vegg því um næstu áramót verður bannað að urða lífrænan úrgang. Hér á Akranesi höfum við alla burði til þess að verða til fyrirmyndar í umhverfismálum og undirrituð hefur góða reynslu og þekkingu í þeim málaflokki.

Undirrituð er oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akranesi í komandi sveitarstjórnarkosningum og situr í stjórn Fenúr – fagráði um endurnýtingu og úrgang ásamt því að eiga sæti í stjórn faghóps Stjórnvísi um loftslagsmál. 

Látum verkin tala – XD fyrir Akranes.

Líf Lárusdóttir