Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur undirritað nýja reglugerð um strandveiðar. Alls verða nú 10.000 tonn af þorski í strandveiðipottinum á þessu tímabili, þar af 1.500 tonn sem skiluðu sér af skiptimörkuðum á útmánuðum og ráðherra ákvað að bæta í strandveiðipottinn.
Hlutfall strandveiða af leyfilegum heildarafla þorsks nemur því 4,5% og hefur ekki hefur svo stórum hluta aflans áður verið úthlutað til strandveiða.
Þessari ákvörðun er ætlað að festa strandveiðar enn betur í sessi, en í dag fá margar fjölskyldur hluta sinna heimilistekna frá strandveiðum. Sá afli sem er til ráðstöfunar fyrir strandveiðar hverju sinni miðast við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og ákvörðun ráðherra um leyfilegan heildarafla.
Brátt hefst fjórtánda strandveiðisumarið frá því strandveiðum var komið á, en strandveiðar eru stundaðar frá maí til ágúst. Grunnhugsunin að baki strandveiðum er að stunda megi veiðar með ströndinni á sjálfbæran og ábyrgan hátt en jafnframt opna möguleika fyrir þau sem ekki hafa yfir aflamarki að ráða á að reyna fyrir sér í sjávarútvegi.
„Ég hef fengið fjölda erinda frá strandveiðimönnum þar sem ég hef verið hvött til að taka til skoðunar hvernig bæta megi kerfið þannig að verðmætasköpun verði sem mest og jafnræði landsvæða sem best. Þessa hvatningu tek ég alvarlega og og hef ég sett slíka vinnu af stað. Mikilvægt er að strandveiðar verði áfram tryggðar í þágu byggða, sjálfbærni og fæðuöryggis,“ segir Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.