Kosningar 2022 – aðsend grein frá Liv Åse Skarstad.

Fyrir 17 árum síðan ákváðum við hjónin að flytja okkur um set og festa rætur á Akranesi. Það var að áeggjan vina okkar að vestan að Akranes varð fyrir valinu. Við skoðuðum fasteignasíðurnar vel og vandlega og loks komum við upp á Skaga og skoðuðum nokkur hús. Ekkert hús heillaði okkur að neinu ráði fyrr en við skoðuðum það síðasta. Það bar ekki mikið á sér, staðsett á baklóð og leit út eins og lítið dúkkuhús. En þessi fyrsta sýn á húsið var ekki á rökum reist. Húsið var stórt, rúmgott og gat rúmað fjölskylduna okkar með góðu móti. Það sem aftur á móti hreif okkur strax var staðsetningin og hið magnaða útsýni sem henni fylgdi. Húsið situr á besta stað við Krókalónið með útsýni yfir allt Snæfellsnesið.

Í stofunni er mjög stór gluggi og út úr honum blasir öll dýrðin við. Það var því ekki að ástæðulausu að við keyptum húsið og það fyrsta sem við gerðum var að staðsetja sófann beint fyrir framan þann glugga. Eitthvað sem fyrri eigendum hafði aldrei dottið í hug! Þar gátum við setið (og gerum enn) tímunum saman og virt fyrir okkur þá dásamlegu náttúru sem blasir við.

Sólsetur við Snæfellsnes er mögnuð sjón og aldrei eins. Það er ekki síður fallegt þegar brimið skellur á varnargarðinum og sjórinn frussast yfir garðinn. Við þær aðstæður setur mann hljóðan og maður ber óttablandna virðingu fyrir þeim óbeisluðu nátttúrukröftum sem eru í kringum okkur. 

Það kom okkur á óvart að margir innfæddir Skagamenn virtust ekki deila sömu aðdáun og við gerðum á útsýninu okkar. Þegar við vorum að dásama staðsetninguna og hversu glöð við værum að vera á þessum stað þá fengum við óspart að heyra að þetta væri nú bara „Skítalón“ og það væri ekkert merkilegt. Fólk sagði við okkur að þarna þrifist ekkert, ekkert merkilegt væri þarna að sjá og þetta skildum við ekki.

Krókalónið hefur breyst mikið í áranna rás frá því við komum hingað fyrst. Í þá daga náði varnargarðurinn lengra upp á lóðina og við urðum lítið var við fuglalíf. Þá var minkurinn landlægur í lóninu og drap allt sem hann náði í. Góður granni okkar var ötull við að reyna stemma stigu við þeirri þróun og með mikilli vinnu náðist loks að hemja minkinn. Nokkru síðar fór fuglinn að koma aftur. Með tilkomu nýrra fráveitulagna hefur ásýnd Krókalónsins orðið mun betri en áður. Dýralífið er fjölskrúðugt, hingað sækja selir, fuglar og hér höfum við séð heilu torfurnar af makríl og hvali sem lóna fyrir utan lónið. Síðustu árin hefur einnig verið aukning í að kajakræðarar rói hér um lónið. 

Fyrir rúmu ári síðan var stígur sem hafði verið lagður þegar fráveitulagnir voru lagðar loksins malbikaður. Mikill styr hafði staðið um þennan stíg og ekki allir á eitt sáttir við að vera komnir með göngustíg, við hjónin þ.á.m., í bakgarðinn sinn. Þegar maður fór svo að ganga þessa fallegu leið þá skipti maður fljótt um skoðun og við vildum að það yrði lagt í að malbika hann og gera hann aðgengilegri. Það tók sinn tíma en það má með sanni segja að vel hafi tekist til. Stígurinn hefur stóraukið umferð gangandi fólks meðfram strandlengjunni og almenn skoðun manna sú að einstaklega vel hafi tekist til. Hrósa ber því sem vel er gert.

Það má með sanni segja að þetta sé ekki lengur „Skítalón“ heldur náttúruparadís sem okkur ber að umgangast af virðingu og passa vel upp á fyrir komandi kynslóðir. 

Liv Åse Skarstad

Höfundur er varabæjarfulltrúi og skipar annað sæti á lista Framsóknar og Frjálsra.